Enski boltinn

Jamie Vardy fékk morðhótanir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy.
Jamie Vardy. Vísir/Getty
Jamie Vardy, framherji Leicester City, lenti í óskemmtilegri aðstöðu eftir umfjöllun fjölmiðla í kjölfarið á því að ítalski knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri var rekinn.

Vardy segir að það hafi verið sárt að lesa fréttir fjölmiðla um að hann hafi átt þátt í því að Ranieri var rekinn. Þessar fréttir höfðu einnig mikil áhrif á líf hans því Vardy og fjölskylda hans fengu í kjölfarið morðhótanir.

Vardy segir fyrrnefndar fréttir hafi verið úr lausu lofti gripnar og algjörlega ósannar.

„Ég las eina frétt um að ég hafi átt að vera á fundi eftir Sevilla-leikinn þegar ég var fastur í þrjá tíma í lyfjaprófi. Þegar fréttin hefur verið birt þá stekkur fólk á þetta og þú ert farin að fá morðhótanir gagnvart þér, fjölskyldunni og börnunum,“ sagði Vardy.

Hann segir óskemmtilegt að hugsa til þess að fólk sé farið að hóta því að trufla eiginkonuna við aksturinn þegar hún er með börnin í aftursætinu.  Vardy tókst þó að láta þetta ekki trufla sig of mikið.

Leicester City rak Claudio Ranieri í febrúar aðeins níu mánuðum eftir að Ítalinn gerði liðið að Englandsmeisturum. Leicester var þá í sautjánda sæti og ekki búið að vinna deildarleik á árinu 2017.

Craig Shakespeare tók við liðinu en Leicester City hefur unnið fjóra fyrstu leikina undir hans stjórn og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

BBC Sport fjallar um ummæli Jamie Vardy en segir jafnframt að heimildir blaðamanna sinna segja að stjórnarformaður Leicester hafi rætt við við leikmennina eftir Sevilla-leikinn og það var neikvæðni frá þeim fundi sem orsökuðu það að Ranieri var rekinn.

Það þótti mörgum sárt að sjá Claudio Ranieri fá slík endalok hjá Leicester City en það eru ekki margir að pæla í ítalska stjóranum lengur eftir þessa draumabyrjun undir stjórn Shakespeare.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×