Körfubolti

Jakob stigahæstur í tapleik gegn toppliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson skoraði flest stig fyrir sína menn í kvöld.
Jakob Örn Sigurðarson skoraði flest stig fyrir sína menn í kvöld. mynd/borås
Jakob Örn Sigurðarson og félagar hans í Borås Basket töpuðu fyrir toppliði BC Luleå, 82-71, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Boras byrjaði leikinn með miklum látum og vann fyrsta fjórðunginn, 27-14, en heimamenn í Luleå tóku völdin eftir það og unnu seinni þrjá leikhlutana og leikinn með ellefu stigum.

Fyrirliðinn Jakob Örn var stigahæstur í sínu liði í kvöld með 22 stig auk þess sem hann tók tvö fráköst. Hann skoraði úr tveimur af sex þriggja stiga skotum og var með 50 prósent nýtingu úr tíu skotum í teignum.

Þetta er annar tapleikur Borås-liðsins í röð en fyrir síðustu tvo leiki var liðið búið að vinna fimm leiki í röð. Það er með 22 stig eftir ellefu sigra og tíu töp í þriðja sæti deildarinnar.

BC Luleå styrkti stöðu sína á toppnum en það er með 34 stig og hefur sex stiga forskot á Norrköping Dolphins. Þjálfari liðsins er Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×