Körfubolti

Jakob og félagar gengu á vegg í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson.
Jakob Sigurðarson. Vísir/Andri Marinó
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Jakob Sigurðarson og félagar í Borås Basket eru lentir 1-0 undir í undanúrslitaeinvígi sinu í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Borås Basket tapaði með 18 stigum í kvöld á útivelli á móti gríðarlega sterku liði Södertälje Kings, 79-61.

Jakob Sigurðarson var með 6 stig, 1 frákast og 1 stoðsendingu á 29 mínútum í leiknum í kvöld. Hann hitti úr 3 af 7 skotum sínum en tókst ekki að skora þrist.

Södertälje Kings hefur þar með unnið fjóra fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni en liðið sló Malbas út 3-0 í átta liða úrslitunum.

Borås-liðið gekk á vegg í fyrsta leikhlutanum sem liðið tapaði 22-8 og leikmenn Södertälje Kings voru síðan komnir 24 stigum yfir í hálfleik, 49-25.

Það var því ljóst strax í hálfleik að Södertälje Kings var að fara halda sigurgöngu sinni áfram í úrslitakeppninni.

Fyrstu tveir leikirnir fara fram í Täljehallen, heimavelli Södertälje Kings, en leikur tvö er á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×