Viðskipti innlent

Jafnvel hlutaþátttaka í útboðinu myndi þýða afar háar upphæðir

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Aflandskrónuútboðið sem Seðlabanki Íslands hélt í dag var það síðasta fyrir losun fjármagnshafta en það hófst klukkan tíu í morgun og lauk klukkan tvö í dag.

Þetta verður síðasta útboðið þar sem eigendum aflandskróna býðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hefja losun hafta á innlenda aðila til að mynda lífeyrissjóði og einstaklinga.

Fyrirkomulag útboðsins verður með þeim hætti að öll samþykkt tilboð samþykkjast á sama verði. Aflandskrónueigendum gefst þá kostur á að skipta krónueignum sínum út fyrir evrur.

Eignir undir 50 milljörðum króna fara til dæmis á 210 krónur fyrir hverja evru. Eignir yfir 175 milljörðum fara á 190 krónur fyrir hverja evru en gengi evrunnar í dag eru tæpar 139 krónur. Niðurstöður útboðsins verða birtar í síðasta lagi 22. júní næstkomandi.

Bjarni Benediktsson fjármála og efnahagsráðherra segir að hér er um stórt skref að ræða í átt að afnámi fjármagnshafta.

„Við væntum þess að umtalsverðar upphæðir komi til þátttöku í útboðinu. Í heild eru aflandskrónurnar í heild, eins og við höfum skilgreint þær sem rúmir 300 milljarðar króna þannig að jafnvel að hlutaþátttaka mun snúast um mjög háar upphæðir,“ segir Bjarni.

Sjá má innslag um aflandskrónuútboðið í spilaranum hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×