Erlent

Jafntefli í austurrísku kosningunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Enga nasista í forsetahöllina.“ Hofer yrði fyrsti þjóðarleiðtoginn úr hópi öfga-þjóðernissinna nái hann kjöri.
„Enga nasista í forsetahöllina.“ Hofer yrði fyrsti þjóðarleiðtoginn úr hópi öfga-þjóðernissinna nái hann kjöri. Nordicphotos/AFP
Enginn augljós sigurvegari kom upp úr kjörkössunum í austurrísku forsetakosningunum í gær.

Eftir talningu atkvæða var Norbert Hofer, frambjóðandi hins öfga-þjóðernissinnaða Frelsisflokks, með 51,9 prósent atkvæða, litlu meira en mótherji hans Alexander Van der Bellen, frambjóðandi Græningja, sem hlaut 48,1 prósent atkvæða.

Þrátt fyrir forystu Hofers er ekki hægt að lýsa hann sigurvegara þar sem utankjörfundaratkvæði verða talin í dag og munu þau skipta sköpum fyrir frambjóðendurna þar sem 14 prósent kjósenda nýttu sér réttinn til að kjósa utan kjörfundar.

Framganga kosninganna var æsispennandi en á meðan á talningu stóð var ekki marktækur munur á frambjóðendunum tveimur og tóku þeir forystu til skiptis.

Norbert Hofer gæti verið kjörinn forseti Austurríkis áður en dagur er úti.Nordicphotos/AFP
Kosningabaráttan hefur dregið fram afar ólíkar hugmyndir frambjóðendanna en baráttan hefur að mörgu leyti snúist um innflytjenda- og flóttamannamál. Hofer hefur tekið harða afstöðu gegn því að Austurríki taki við mörgum flóttamönnum en Van der Bellen talaði fyrir samheldinni Evrópu sem breiði út faðminn.

Hefðinni samkvæmt er hlutverk forseta ekki valdamikið. Líkt og á Íslandi er meginhlutverk hans að veita stjórnarmyndunarumboð og veita ríkisstjórnum lausn. Hofer hefur hins vegar hótað því að verði hann forseti muni hann beita völdum forseta sem skilgreind eru í stjórnarskrá en hefur aldrei verið beitt. Til að mynda hótaði hann í sjónvarpskappræðum í síðustu viku að hann myndi leysa upp neðri deild austurríska þingsins og boða til kosninga en flokkur hans, Frelsisflokkurinn, mælist með mest fylgi samkvæmt skoðanakönnunum.

„Það kæmi ykkur á óvart hvað forseti er fær um að gera,“ sagði Hofer í kappræðunum.

Fari svo að Hofer verði kosinn forseti yrði hann fyrsti þjóðarleiðtoginn í Evrópu til að koma úr flokki öfga-þjóðernissinna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 23. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×