Enski boltinn

Jafntefli ekki ólíkleg niðurstaða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester United vann síðast heimaleik í ensku úrvalsdeildinni 24. september þegar liðið lagði Englandsmeistara Leicester. Sama dag vann Tottenham sigur á nýliðum Middlesbrough á útivelli sem er einmitt síðasti útivallarsigur Spurs á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Þessi tvö lið mætast í stórleik á sunnudaginn.

Ekkert hefur gengið hjá United í deildinni að undanförnu en liðið er búið að gera þrjú jafntefli í röð og vinna aðeins tvo af síðustu ellefu leikjum sínum. Baráttunni um Englandsmeistaratitilinn er meira og minna lokið eftir fjórtán umferðir og eltingaleikurinn við Meistaradeildina strax orðinn erfiður.

Síðan United vann Leicester er það búið að gera fjögur jafntefli á heimavelli í röð gegn Stoke, Burnley, Arsenal og West Ham. United er búið að gera sex jafntefli í deildinni í vetur, jafnmörg og Tottenham en þau eru með flest jafnteflin af sex efstu liðunum.

Tottenham-menn voru jafntefliskóngarnir af efstu sex liðunum á síðustu leiktíð en þeir gerðu þrettán jafntefli og eru nú þegar komnir með sex. Miðað við gengi þessara liða að undaförnu og erfiðleika þeirra í að klára leiki þyrfti að ekki að koma neinum neitt sérstaklega á óvart ef jafntefli yrði niðurstaðan á Old Trafford á sunnudaginn.

Bæði lið koma inn í leikinn á sigurbraut. United vann Zorya í Evrópudeildinni á fimmtudaginn og tryggði sér sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Það sama gerði Tottenham með því að vinna CSKA Moskvu, 3-1, í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar en þar hafnaði Spurs í þriðja sæti í sínum riðli og féll niður í Evrópudeildina.

United er aðeins með 21 stig eftir fjórtán leiki sem er versti árangur liðsins á þessu stigi í Úrvalsdeildinni eftir þetta margar umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×