Handbolti

Jafnt í toppslagnum á Ásvöllum | Telma með sýningu í sigri ÍBV

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ramune fór á kostum í dag.
Ramune fór á kostum í dag. Vísir/Stefán
Haukar og Grótta skyldu jöfn í toppslag Olís-deildar kvenna í dag en Haukum tókst að jafna metin skömmu fyrir leikslok og tókst Seltirningum ekki að skora í lokasókn sinni.

Jafnræði var með liðunum í leiknum en Grótta tók tveggja marka forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 9-7. Grótta náði þegar mest var þriggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Haukakonum tókst að jafna metin þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Skiptust liðin á mörkum það sem eftir lifði leiks og þurftu þau því að sætta sig við jafntefli en Haukakonur eru áfram í efsta sæti Olís-deildarinnar eftir leikinn með eins stigs forskot á Fram og Gróttu.

Ramune Pekarskyte sem skoraði jöfnunarmark Hauka fór á kostum í leiknum og skoraði ellefu mörk en í liði Gróttu var Sunna María Einarsdóttir atkvæðamest með sex mörk.

Telma var frábær í leiknum í dag.Mynd/Jóhannes Ásgeir Eiríksson
Eyjakonur sóttu tvö stig til Selfoss en ÍBV leiddi með sex mörkum í hálfleik og vann að lokum sannfærandi sigur. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór að vanda fyrir liði Selfoss með ellefu mörk en Telma Amando bauð upp á sýningu í liði ÍBV með þrettán mörk.

Þá unnu Fylkiskonur öruggan tólf marka sigur á Fjölni á útivelli í kvöld eftir að hafa leitt með sex mörkum í hléi. Patricia Szölösi var atkvæðamest í liði Fylkis með sex mörk en í liði Fjölnis var Berglind Benediktsdóttir markahæst með fimm.

Úrslit kvöldsins:

Selfoss 30-35 ÍBV

Haukar 21-21 Grótta

Fjölnir 18-30 Fylkir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×