Innlent

Jafnréttisráðstefna í Hörpu: Kostar formúu að sjá Geenu Davis

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Á meðal þeirra sem taka þátt í ráðstefnunni eru Christine Lagarde og Geena Davis.
Á meðal þeirra sem taka þátt í ráðstefnunni eru Christine Lagarde og Geena Davis. Vísir/Getty/GVA
Ekki verður á allra færi að sækja ráðstefnu í Hörpu í sumar þar sem fjallað verður um kynjamisrétti því á hana kostar 750 evrur sem jafngildir um 109 þúsund íslenskum krónum. Þetta verð gildir til 15. maí en eftir þann tíma hækkar verðið um 200 evrur og verður því 950 evrur sem jafngildir rétt tæplega 140 þúsund krónum.

Alþjóðlega ráðstefnan Inspirally WE 2015 verður haldin í Hörpu í sumar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt eins og fram hefur komið. Ráðstefnan er að sögn Höllu Tómasdóttur, ráðstefnustjóra, alþjóðlegt samtal um bestu leiðirnar til að brúa kynjamuninn. Hún ræddi við Fréttatímann í apríl.

Þetta kemur fram á vefsíðu ráðstefnunnar.

Innifalið í verðinu er tveggja daga ráðstefna, kvöldverður með íslenskum sjávarréttum og „bright ideas lunch“.

Á síðunni er möguleiki gefinn á því að leggja einstaklingum lið sem eiga ekki næga fjármuni til að greiða þátttökugjaldið með því að leggja til 50 evrur eða tæplega 7500 krónur.

Geena Davis, leikkona og stofnandi The Geena Davis institute og Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taka þátt í ráðstefnunni meðal annarra. Einnig verða nokkrir íslenskir stjórnmálamenn meðal þátttakenda. Þar má nefna Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrum forsætisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, Jón Gnarr fyrrum borgarstjóra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem starfar um þessar mundir hjá UN Women.

Ráðstefnan verður dagana 18. - 19. júní.

Ekki náðist í Höllu Tómasdóttur, ráðstefnustjóra í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×