Skoðun

Jafnrétti og réttlæti á vinnumarkaði Norðurlanda og Evrópu

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði skrifar


Sameiginlegur norrænn vinnumarkaður hefur í 60 ár reynst afar vel og hefur gefið hundruðum þúsunda Norðurlandabúa tækifæri til að sækja erlendis. Jafnaðarmenn á Norðurlandaráði vilja varðveita og styrkja sameiginlega vinnumarkaðinn og vinna því stöðugt að afnámi landamærahindrana, auknum tungumálaskilningi og hreyfanleika milli norrænu landanna.

Norræna módelinu hefur tekist að sameina jafnrétti og efnahagslega velgengni. En það er enn mikið verk óunnið til að ná fullu réttlæti og jafnrétti á vinnumarkaðnum.

Helstu áskoranir okkar í vinnumarkaðsmálum snúa nú að misrétti og atvinnuleysi sem víða þrífst. Ungt fólk, innflytjendur og fólk með fötlun á erfitt með að komast inn á vinnumarkaðinn. Eldra fólk á í erfiðleikum með að halda störfum sínum. Erlendir starfsmenn njóta lakari lífsgæða vegna lágra launa og félagslegra undirboða. Lægri laun, minni möguleikar á framgangi í starfi og erfiðleikar við að sameina vinnu og fjölskyldulíf er enn veruleiki flestra kvenna á vinnumarkaði.

Norrænt samstarf og okkar sameiginlegi vinnumarkaður veitir Norðurlöndunum einstakt tækifæri til að læra af reynslu hvert annars og leita lausna á vandamálum í sameiningu. Hinn nýi íslenski jafnlaunastaðall er dæmi um verkefni sem getur nýst til að varpa ljósi á og vinna gegn óútskýrðum launum kynjanna. Til að takast á við atvinnuleysi ungs fólks getum við horft til finnsku leiðarinnar sem tryggir atvinnulausum ungmennum starf eða starfsmán innan þriggja mánaða.

Norska og danska námskerfið brúar mjög vel bilið milli skóla og vinnu og sænska fullorðinsfræðslan hefur reynst vel fyrir þá sem þurfa að afla sér viðbótarmenntunar eða þurfa annað tækifæri á vinnumarkaði.

Þegar kemur að baráttunni við félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi hafa Norðurlöndin valið mismunandi aðferðir og leiðir sem gefur okkur einstakt tækifæri til að meta hvaða ráðstafanir hafi reynst best. Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði hafa því lagt fram tillögu sem hefur að markmiði að festa í sessi samningsbundin vinnuskilyrði og sanngjarna samkeppni og tryggja betur upplýsingjöf til erlendra starfsmanna og fyrirtækja um þær reglur sem gilda, réttindi þeirra og skyldur.

Enn fremur hvetja jafnaðarmenn í Norðurlandaráði norrænu ríkisstjórnirnar til samstarfs um framkvæmd Evróputilskipunarinnar um útselda starfsemi til að tryggja skilvirkt eftirlit starfseminnar án þess að við það skapist nýjar landamærahindranir.

Í dag eru flest vinnumarkaðsmál Norðurlandanna tengd Evrópusambandinu. Við þurfum sameiginlegar reglur til að vernda starfsmenn og jafna kjörin á innri markaðnum, reglur sem nýtast öllum sem búa og starfa í Evrópu.

Jafnaðarmenn vilja að Norðurlöndin og Evrópa keppi í gæðum og framleiðni, en ekki í kapphlaupi í átt að botninum með lágum launum og lakari lífskjörum. Reynsla Norðurlandanna sýnir að aukið jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og aukinn jöfnuður og sátt um launaþróun skilar aukinni framleiðni og hagsæld.

Þá vitneskju vilja jafnaðarmenn nýta til að framfylgja róttækri stefnu um jafnrétti og atvinnuöryggi um alla Evrópu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×