Skoðun

Jafnrétti er viðskiptatækifæri

Birna Bragadóttir og Sunna Valgerðardóttir skrifar
Stundum er augljóst hverju jafnréttisbarátta á að skila. Það er augljóst af hverju það á að segja frá kynferðisofbeldi. Af hverju konur eiga að fá jafnhá laun og karlar fyrir sömu vinnu. Og það er augljóst af hverju sömu tækifærin eigi að gilda um bæði kynin. Það er jafnrétti.

Það er nauðsynlegt að minna sig á, til að missa ekki sjónar á tilganginum.

Sóun á hæfileikum

Hvers vegna þarf að fjölga kvenkyns stjórnendum? Hvers vegna þarf að jafna kynjahlutföllin í atvinnugreinunum? Þetta eru eðlilegar spurningar. Það er hægt að færa rök fyrir því að hlutirnir hafi gengið ágætlega hingað til.

Fiskur kemur úr sjónum þó að hann sé bara veiddur af körlum. Börnin koma í heiminn og rölta fín út af leikskólunum þó að þau hafi nær alfarið verið í höndum kvenna. Rafmagnið kemur í húsin þó að lagnirnar séu lagðar af körlum. Ferðamenn fá þjónustu um borð þó að fáir séu flugþjónarnir. Og fyrirtækin skila hagnaði þó að í framkvæmdastjórnum sitji oftast karlar.

Til hvers að breyta þessu? Vegna þess að skortur á aðgangi að hæfu fólki er vandamál í mörgum atvinnugreinum og staðalmyndir og kynskiptur vinnumarkaður eykur þann vanda um helming. Ungt fólk þarf að sjá þá möguleika sem standa til boða og velja nám og starf út frá áhuga og styrkleikum en ekki kyni.

Blandað er betra

Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið markvisst að því að auka jafnrétti á vinnustaðnum. Kynbundnum launamun hefur verið eytt, hlutfall kvenkyns stjórnenda er komið í 42% og markvisst átak var sett af stað til að fjölga stelpum í iðnnámi. Starfræktar eru jafnréttisnefndir innan allra dótturfyrirtækja OR.

Einungis 12% grunnskólanema fara í starfsnám og þar af eru stelpur lítið brot. Atvinnulífið þarf að ávarpa þann vanda sem blasir við og breyta ímynd atvinnugreinanna til að auka áhuga beggja kynja.

Jafnrétti næst ekki nema þeir sem ráða taki af skarið. Þeir þurfa að forgangsraða og framkvæma. Blandaðir vinnustaðir eru betri og skemmtilegri. Kynferðisleg áreitni og einelti er mun minna og umræðan heiðarlegri.

Góðir vinnustaðir laða til sín hæft fólk og hæft fólk skilar mestum árangri. Það er viðskiptatækifæri í jafnréttinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×