Erlent

Jafnaðarmannaflokkurinn til formlegra viðræðna við Merkel

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Meirihluti Jafnaðarmannaflokksins vill formlegar viðræður við Kristilega demókrata.
Meirihluti Jafnaðarmannaflokksins vill formlegar viðræður við Kristilega demókrata. Nordicphotos/AFP
Þýski Jafnaðarmannaflokkurinn hyggst ganga til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við flokk Angelu Merkel, Kristilega demókrata. Þetta er niðurstaða kosninga sem fóru fram á flokksfundi Jafnaðarmannaflokksins í Bonn í dag.

Á fundinum var mjótt á mununum en 362 fundarmanna kusu að hefja viðræður við Kristilega Demókrata, 279 kusu gegn tillögunni og einn sat hjá. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Martin Schulz, formaður Jafnaðarmannaflokksins, er meðvitaður um að stjórnarmyndunarviðræðurnar verði erfiðar.
„Að sjálfsögðu er þungu fargi af okkur létt,“ segir leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, Martin Schulz, en hann tekur jafnframt fram að enn sé langt í land. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður verði alveg jafn erfiðar og óformlegar þreifingar flokkanna á milli reyndust vera. Schulz segir brýnt að semja í upphafi um ákveðinn tímaramma og þá bindur hann vonir við að geta hafið stjórnarmyndunarviðræður sem allra fyrst.

Angela Merkel fagnar ákvörðun Jafnaðarmannaflokksins og segist hlakka til að hefja stjórnarmyndunarviðræður sem hún vonar að verði lausnamiðaðar og skynsamar. 

Þjóðverjar kusu í lok september á síðasta ári en það hefur reynst afar erfitt að mynda ríkisstjórn út frá niðurstöðum kosninganna. 


Tengdar fréttir

Merkel vongóð og ber traust til flokks Schulz

Þýskalandskanslari bíður nú eftir að flokksmenn Jafnaðarmannaflokksins samþykki að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Stjórnarkreppa hefur verið í landinu mánuðum saman en nú stefnir í að stórbandalagið starfi saman aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×