Íslenski boltinn

Jacob Schoop æfir hjá MLS-liði Orlando City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jacob Schoop.
Jacob Schoop. Vísir/Andri Marinó
Jacob Schoop, danski miðjumaðurinn sem spilaði með KR í Pepsi-deildinni síðasta sumar, fær tækifæri til að sýna sig og sanna hjá bandaríska MLS-liðinu Orlando City. Hann gæti því spilað í Bandaríkjunum í sumar en ekki á Íslandi.

Orlando City er eitt af nýjustu liðunum í MLS-deildinni en stærsta stjarna liðsins er Brasilíumaðurinn Kaka. Hvort Kaka og Jacob Schoop spili saman á miðju Orlando City sumarið 2016 er ekki alveg ljóst ennþáþ

Danska fótboltafréttasíðan bold.dk segir frá stöðu mála hjá Jacob Schoop og talar þar við umboðsmann hans, Íslendinginn Guðlaug Tómasson.

„Orlando hefur verið að skoða Jacob allar götur síðan að hann spilaði með OB og þeir fylgdust með honum á Íslandi. Adrian Heath, sem er þjálfari hjá Orlando, þekkir Bjarna Guðjónsson, þjálfara KR, síðan þeir voru saman hjá Stoke. Bjarni talaði vel um Jacob Schoop við Adrian," sagði Guðlaugur í viðtalinu við bold.dk.

„Orlando hefur æfingar á föstudaginn og þeir ætla að skoða hann. Þetta er frábær tækifæri fyrir hann," sagði Guðlaugur.

Jacob Schoop er 27 ára gamall og var með 1 mark og 7 stoðsendingar í 21 leik í Pepsi-deildinni 2015.

„Jacob hefur pottþétt áhuga ef Orlando vill fá hann. Hann vill fá að prófa þetta en þetta verður samt að vera góður samningur. Lið í Danmörku og á Norðurlöndum hafa ennþá áhuga á honum," sagði Guðlaugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×