Golf

Jack Nicklaus er mjög ánægður með Jordan Spieth

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Spieth.
Jordan Spieth. Vísir/Getty
Jordan Spieth, nýkrýndur Masters-meistari í golfi, hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu og framgöngu enda spilaði hann frábærlega frá fyrsta degi og vann Masters-mótið á 18 höggum undir pari.

Jack Nicklaus vann sex Mastersmót á sínum ferli og fleiri risamót en nokkur annar. Hann hrósaði hinum 21 árs gamla Jordan Spieth í hástert.

„Þetta var ótrúleg frammistaða hjá honum," sagði í yfirlýsingu frá Jack Nicklaus sem er orðinn 75 ára gamall en hann vann Mastersmótið síðast árið 1986.

„Ég hrifin af öllu hjá þessum unga manni. Hann er kurteis og hann er auðmjúkur. Hann kemur mjög vel fram bæði inn og utan golfvallarins. Hann er augljóslega frábær kylfingur og nú er hann Masters-meistari," sagði Jack Nicklaus.

„Ég tel að Jordan Spieth sé frábær persóna, alveg eins og Rory McIlroy, til að bera hróður golfíþróttarinnar inn í framtíðina," sagði Jack Nicklaus í yfirlýsingu sinni.  Rory McIlroy er efsti maðurinn á heimslistanum en má passa sig ef Jordan Spieth heldur áfram að spila eins og að undanförnu.

Jack Nicklaus vann Masters-mótið í fyrsta sinn árið 1963 en hann var þá 23 ára gamall. Jack Nicklaus vann mótið einnig 1965, 1966, 1972, 1975 og svo síðast árið 1986.


Tengdar fréttir

Jordan Spieth uppfyllti æskudrauminn og sigraði á Masters

Sigraði fyrsta risamót ársins með fjórum höggum eftir magnaða frammistöðu á Augusta National vellinum alla helgina. Hélt ró sinni og gerði það sem þurfti til þess að sigla sigrinum heim á lokahringnum í kvöld




Fleiri fréttir

Sjá meira


×