Körfubolti

Ívar kom Ungverjum mikið á óvart en á hann ás upp í erminni fyrir kvöldið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ásgrímsson.
Ívar Ásgrímsson. Mynd/S2/Böddi
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta spilar í kvöld sjötta og síðasta leik sinn í undankeppni EM 2017. Landsliðsþjálfarinn Ívar Ásgrímsson hefur nánast þurft að setja saman nýtt lið vegna allar forfallanna.

„Við þurfum að laga nokkra hluti. Sérstaklega þurfum við að passa upp á boltann. Við vorum með 33 tapaða bolta úti. Það er hluti sem við þurfum að laga því það er ljóst að ef við töpum mörgum boltum þá verður þetta mjög erfitt,“ sagði Ívar Ásgrímsson, eftir æfingu íslenska landsliðsins í gær.  

„Við þurfum líka að fá einhvern til að taka af skarið sóknarlega og skora fyrir okkur. Okkur vantar einhvern sem getur skorað 20 stig. Það var erfitt á móti Slóvökum því þær voru það stórar að þær gátu rekið mikið niður og við áttum í erfiðleikum með að fara inn í teig,“ sagði Ívar Ásgrímsson

„Portúgalar eru líka með stóra leikmenn en ekki með alveg eins stóra og Slóvakarnir. Þetta verður því aðeins auðveldara þannig séð,“ sagði Ívar.

„Við höfum verið að fara yfir ýmsa hluti sem við höfum ekki verið að nota áður í keppninni. Við ætlum að reyna að koma aðeins á óvart í þessu leik. Við erum búin að vera að einbeita okkur að þessum leik við Portúgal og það hefur kannski háð okkur líka í Slóvakíu og að við höfum verið að einbeita okkur dálítið mikið að Portúgölum,“ sagði Ívar

„Við vissum að þetta yrði mjög erfitt í Slóvakíu. Þetta var kannski fullstórt tap en um leið var þetta reynsla og kjaftshögg. Það vilja allir í liðinu gera miklu betur og sýna sitt rétta andlit ,“ sagði Ívar.

Hann setti Helenu Sverrisdóttur inn í teig fyrir sigurleikinn á móti Ungverjalandi í febrúar. Íslenska liðið byrjaði þá frábærlega og virtist koma ungverska liðinu mikið á óvart.

„Það kom Ungverjum á óvart og þær náðu aldrei að koma til baka eftir það. Við höfum ekki þessi vopn í sókninni núna eins og við vorum með. Á móti kemur að við erum með fljóta leikmenn sem eiga að geta spilað grimmt. Við ætlum að reyna að nýta okkur það í byrjun og reyna að koma Portúgölum á óvart strax í byrjun,“ sagði Ívar.

Hvað myndi það þýða fyrir íslenska liðið að ná þriðja sætinu í riðlinum?

„Það gæfi öllum sjálfstraust og trú á það verkefni sem við erum með í gangi. Aðalmálið er að við náum góðum leik og náum að spila góðan bolta. Við þurfum að sýna að við séum að læra og að þróa okkar leik,“ sagði Ívar.

Það vantar marga reynslubolta og nú síðast datt Pálína Gunnlaugsdóttir út vegna meiðsla.

„Pálína er baráttujaxl og mikill leiðtogi inn á velli. Hún hitti líka vel fyrir utan. Auðvitað veikir það liðið því enn einn byrjunarliðsmaðurinn er að detta út. Það má segja að við höfum bara tvo eftir af þeim hafa verið að spila eitthvað. Það koma nýjar í staðinn og þetta er bara eitthvað sem er í gangi hjá öllum liðum. Það er alltaf einhver að detta út. Við þurfum bara að vinna úr því,“ sagði Ívar.

Leikur Íslands og Portúgals fer fram í Laugardalshöllinni og hefst klukkan 19.30 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×