Körfubolti

Ívar: Stærsti sigur íslenska kvennalandsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Ívar var að vonum hæstánægður með sínar stelpur.
Ívar var að vonum hæstánægður með sínar stelpur. vísir/ernir
"Númer eitt, þetta er stærsti sigur íslenska kvennalandsliðsins," sagði Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari, aðspurður hversu stór sigur Íslands á Ungverjalandi í kvöld væri í sögulegu samhengi.

Íslenska liðið spilaði frábæran leik og landaði 10 stiga sigri, 87-77, sem var sá fyrsti í undankeppni EM 2017.

Ívar sagði að betri sóknarleikur hafi verið lykilinn að sigri Íslands í kvöld.

"Varnarleikurinn hefur alltaf verið góður hjá okkur og hann var stórkostlegur í kvöld. En í kvöld var sóknarleikurinn frábær," sagði Ívar í leikslok.

"Við breyttum byrjunarliðinu, byrjuðum inn á með minna lið og ákváðum að setja Helenu í fjarkann (stöðu kraftframherja). Þær höfðu ekki lausnir við því. Hún dró sig út og fékk frí skot eins og við vorum búin að ákveða. Hún kom liðinu í gang og spilaði stórkostlega vörn á þeirra besta mann.

"Heilt yfir var þetta stórkostleg frammistaða hjá liðinu."

Ísland náði strax góðu forskoti og leiddi allan leikinn. Ungverjar áttu nokkur áhlaup en þau voru kraftlítil og gestirnir náðu aldrei að minnka muninn að neinu ráði.

"Stærstan hluta af seinni hálfleik var munurinn 13-17 stig og alltaf þegar þær gerðu smá áhlaup gáfum við bara í. Við settum niður stór skot og fengum frábært framlag frá bekknum," sagði Ívar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×