Viðskipti innlent

ITV kaupir sýningarréttinn að QuizUp spurningaþættinum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorsteinn Friðriksson höfundur Quiz Up.
Þorsteinn Friðriksson höfundur Quiz Up. Vísir
 ITV fjölmiðlarisinn, sem rekur hátt í tíu sjónvarpsstöðvar í Bretlandi, hefur keypt réttinn að QuizUp spurningaþættinum þar í landi og ætlar að framleiða prufuþátt. Í tilkynningu frá Quiz Up kemur fram að Þorsteinn B. Friðriksson, höfundur Quiz Up, hefði kynnti þáttinn fyrir breskum sjónvarpsstöðvum í London í síðustu viku og er ITV sagt hafa stokkið á hugmyndina.

Verður ITV þar með fyrsta evrópska stöðina sem tryggir sér rétt til að framleiða og sýna þáttinn. Einnig er þetta fyrsti þátturinn frá NBCUniversal International Studios sem seldur er til Evrópu áður en hann fer í loftið í Bandaríkjunum.

Þorsteinn er staddur í Cannes í Frakklandi MIPCOM kaupstefnunni sem stendur fram eftir vikunni. Í tilkynningunni frá Quiz Up segir að fjöldi sjónvarpsstöðva hafi sýnt sjónvarpsréttinum á Quiz Up áhuga á ráðstefnunni en með Þorsteini í för er Viggó Örn Jónsson framleiðandi. Þeir kynna fyrir þáttinn fyrir innkaupa- og dagskrárstjórum sjónvarpsstöðva um allan heim.

Alls eru um 15 þúsund manns sem sækja ráðstefnuna í því skyni að skoða nýtt sjónvarpsefni. Dagskrárstjórar allra íslensku sjónvarpsstöðvanna eru til að mynda staddir á kaupstefnunni auk annarra Íslendinga sem eru að kynna þróunarverkefni fyrir sjónvarp.

Þegar hefur verið greint frá því að ein stærsta sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, NBC, ætli að framleiða 10 þátta seríu sem byggi á QuizUp. Þættirnir ganga þannig fyrir sig að þátttakandi í upptökuveri etur kappi við sjónvarpsáhorfendur sem sitja heima hjá sér og spila leikinn í snjalltækjum sínum. Ef þátttakandinn vinnur átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppendum, sem geta verið staddir hvar sem er í landinu, þá geta þeir unnið háa fjárhæð. Ef einhverjir af andstæðingunum vinna sínar lotur, þá hljóta þeir upphæðina sem í boði var fyrir þá lotu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×