Innlent

Ítrekar óviðeigandi skilaboð

Snærós Sindradóttir skrifar
Maðurinn er meðal annars sakaður um að gefa í skyn að stúlkurnar séu vændiskonur. Myndin er sviðsett.
Maðurinn er meðal annars sakaður um að gefa í skyn að stúlkurnar séu vændiskonur. Myndin er sviðsett. vísir/ernir
Maður sem grunaður er um að birta myndir af íslenskum ólögráða stúlkum á netinu og tengja við vændisvefsíður er grunaður um að halda uppteknum hætti. Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í nóvember en lögregla hefur undir höndum gögn sem sýna hann áreita stúlkur á netinu eftir að gæsluvarðhaldi lauk.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa 26 kærur borist lögreglu vegna myndbirtinga mannsins en í frétt RÚV frá því í nóvember segir að maðurinn hafi birt myndir af 88 stúlkum en þær hafi þá ekki allar gefið sig fram til lögreglu. Maðurinn hélt þá úti sérstakri vefsíðu undir myndbirtinguna og þegar smellt var á myndirnar opnaðist svæsið klámefni sem tengdist stúlkunum ekki.

Flestar stúlkurnar eru búsettar í Reykjanesbæ en þó ekki allar. Í nýjum gögnum málsins sést að maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, gerir athugasemdir við myndir af stúlkunum á Facebook og biður þær um kynferðislega greiða við sig. Stúlkurnar sem hann herjar á eiga það sammerkt að aðgangur þeirra á Facebook er öllum opinn og ekki þarf að vera vinur til að sjá myndir eða gera athugasemdir. Þá hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að maðurinn hafi þegar verið kærður fyrir tilraun til að tæla ólögráða stúlku til að hitta sig. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×