Innlent

Ítreka mikilvægi öryggis við lyfsölu

Snærós Sindradóttir skrifar
Í dag verður að geyma öll lyf í verslunum á bak við afgreiðsluborðið.
Í dag verður að geyma öll lyf í verslunum á bak við afgreiðsluborðið.
Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands gagnrýnir kröfu hóps innan Samtaka verslunar og þjónustu sem vill auka frelsi í viðskiptum með ákveðin ólyfseðilsskyld lyf. Í Fréttablaðinu síðastliðinn miðvikudag var greint frá rannsókn hópsins um það hversu mikla aðstoð og ráðgjöf starfsfólk apótekanna veitir viðskiptavinum en í 13 prósentum tilfella var slík ráðgjöf veitt að frumkvæði starfsfólksins.

Hópurinn vill gefa sölu vægra verkjalyfja, kveflyfja, magalyfja og ofnæmislyfja frjálsa svo hægt sé að selja þessi lyf í almennum verslunum en í dag má selja vissar pakkningar nikótínlyfja og flúors í verslunum með því skilyrði að einungis afgreiðslufólk hafi aðgang að þeim.

Í tilkynningu frá Lyfjafræðingafélagi Íslands segir að reynslan hafi sýnt að framkvæmd og sölu og aðgengis þessara lyfja sé ekki í samræmi við þær reglur sem gilda. „Lyf eru viðkvæm vara og strangar reglur gilda um geymslu þeirra hvort sem er í flutningi, í lyfjavöruhúsum eða í apótekum. Hver mun bera ábyrgð á því í almennum verslunum að lyfin séu geymd á réttan hátt?“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að öryggi viðskiptavinarins sé aðalatriðið. „Hann á að geta verið öruggur um að fá rétta lyfið við þeim kvilla sem hrjáir hann og svör við þeim spurningum sem kunna að vakna hjá honum.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×