Erlent

Ítölsk lögregla með mann í haldi vegna morðsins á Ashley Olsen

Atli ísleifsson skrifar
Talið er að Ashley Olsen hafi verið kyrkt, auk þess að höfuðkúpa hennar var brákuð á tveimur stöðum.
Talið er að Ashley Olsen hafi verið kyrkt, auk þess að höfuðkúpa hennar var brákuð á tveimur stöðum. Vísir/Instagram/AFP
Lögregla á Ítalíu hefur handtekið mann vegna gruns um morðið á bandarísku konunni Ashley Olsen sem fannst látin í íbúð sinni í Flórens um helgina.

Sky greinir frá því að Senegalinn Diaw Cheik Tidiane hafi hitt hina 35 ára Olsen á næturklúbbi í Flórens og hafi lífsýni hans fundist undir nöglum hennar, á smokki og sígarettustubbi í íbúðinni.

Saksóknarinn Giuseppe Creazzo segir að þau Olsen og Tidiane hafi sofið saman á heimili hennar, mögulega undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Talið er að Olsen hafi verið kyrkt, auk þess að höfuðkúpa hennar var brákuð á tveimur stöðum.

Kærasti Olsen, ítalskur listamaður, kom að líki Olsen um helgina. Hann hafði óttast um hana eftir að hafa ekkert heyrt frá henni í nokkra daga og hafi hann því beðið eiganda íbúðarinnar sem Olsen leigði að hleypa sér inn.

Creazzo segir að Tidiane, sem sé 25 ára ólöglegur innflytjandi, hafi játað að hafa banað Olsen. Ítalskir fjölmiðlar segja að hann hafi ekki ætlað sér að bana henni, en að hún hafi dottið og slegið höfuðið í eitthvað hart, þegar þau rifust.

Saksóknarinn segir að myndbandsupptökur hafi sýnt að þau Olsen og Tidiane hafi yfirgefið næturklúbbinn Montecarla saman og farið saman inn í hús Olsen.

Olsen ólst upp í Flórída en hafði búið í Flórens um þriggja ára skeið. Hún flutti til borgarinnar eftir að faðir hennar hóf störf sem prófessor við skóla í borginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×