Fótbolti

Ítalskt félag baðst afsökunar vegna stuðningsmanns sem stóð upp úr hjólastól

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skjáskot úr myndbandinu umdeilda.
Skjáskot úr myndbandinu umdeilda. Youtube
Stuðningsmaður ítalska B-deildarliðsins Foggia hefur veirð nokkuð gagnrýndur vegna atviks sem kom upp fyrir leik liðsins gegn Cesena nýverið.

Stuðningsmaðurinn sést á myndbandi sem má sjá neðst í fréttinni standa upp úr hjólastól áður en hann fær sér sæti í stúkunni. „Þetta er kraftaverk!“ mátti þá heyrast úr stúkunni. ESPN fjallar um málið.

Maðurinn er sakaður um að hafa gert sér upp fötlun til að komast inn á völlinn en hann þvertekur fyrir það. Hann hafi verið fylgdarmaður fatlaðs manns og verið að ganga frá hjólastólnum. Hann vildi bara slá á létta strengi.

Engu að síður hefur Foggia fordæmt atvikið og sent frá sér yfirlýsingu þess efnis.

„Þetta er sárlega móðgandi fyrir alla þá sem lifa með fötlun hvern einasta dag. Við munum leita allra leiða til að bera kennsl á og kæra þessa manneskju sem bar ábyrgð á þessari skelfilegu uppákomu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Maðurinn kom í viðtal við Telefoggia þar sem hann vildi segja sína sögu, biðjast afsökunar og láta vita að hann skammist sín mjög mikið.

Foggia vann umræddan leik, 2-1, og er í tólfta sæti deildarinnar með 40 stig. Empoli trónir á toppnum með 57 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×