Lífið

Ítalskir útgefendur kepptust um íslenska vínbók

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Sigga Björg með eintak af bókinni en sýning á myndunum sem hana prýða verður opnuð í Hverfisgalleríi í dag.
Sigga Björg með eintak af bókinni en sýning á myndunum sem hana prýða verður opnuð í Hverfisgalleríi í dag. Vísir/Stefán
Við skiptum bara víntegundunum niður á okkur og svo sátum við bara hver í sínu horninu og teiknuðum,“ segir myndlistarkonan Sigga Björg Sigþórsdóttir sem ásamt þeim Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og Rán Flygenring sá um að myndskreyta bókina Vín – Umhverfis jörðina á 110 tegundum sem kom út á dögunum.

Líkt og gefur að skilja er úrval vína í bókinni alþjóðlegt og af þeim sökum er komin upp sú staða hjá Crymogea sem gefur bókina út að bitist er um hina íslensku Vín-bók hjá ítölskum útgefendum sem áhugavert er í ljósi vínmenningar ítölsku þjóðarinnar. Viðræður um útgáfuna eru nú langt komnar og því ætti bókin að líta dagsins ljós í bókabúðum á Ítalíu innan skamms.

Myndskreytingarnar í bókinni eru þó ekki af hefðbundnu tagi og er flöskumiðum ekki gert hátt undir höfði heldur eru víntegundir alls staðar að úr heiminum teiknaðar líkt og per­sónur eða einstaka dráttum í sögu þeirra gefin sérstök einkenni. Bókin er skrifuð af Steingrími Sigurgeirssyni og notfærðu þær Sigga, Rán og Lóa sér lýsingar hans.

Ein af myndum Siggu sem prýða bókina.
„Við lásum bara textana hans Steingríms ítarlega og myndskreyttum út frá því. Myndirnar eiga ekki bara að sýna hvað er á textanum heldur bæta við hann og við fórum aðeins út fyrir hefðbundna myndskreytingarhugsun,“ segir Sigga glöð í bragði en þær Lóa tóku fyrir 37 tegundir af víni og Rán 35 en hún er listrænn stjórnandi bókarinnar og sá um útlit hennar ásamt grafíska hönnuðinum Herði Lárussyni.

Sigga segir að verkefnið hafi vissulega verið lærdómsríkt og hún viti nú talsvert meira um vín en það hún vissi áður en lagst var í verkefnið.

„Þetta er náttúrulega rosalega mikið af myndum, við hefðum nú kannski ekki komist langt með þetta ef við hefðum drukkið þau öll,“ segir hún og skellir upp úr þegar hún er spurð að því hvort hún hafi ekki fengið að væta kverkarnar með þeim vínum sem hún tók fyrir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×