Innlent

Ísraelsmenn gramir vegna flugbanns á Tel Aviv

Heimir Már Pétursson skrifar
Ísraelsmenn eru reiðir bandarísku flugmálastjórninni fyrir að hafa bannað flug til Tel Aviv vegna eldflaugaárása Hamas á nágrenni flugvallar borgarinnar. Farþegar hafa hins vegar skilning á því að flugið sé bannað.

Ástandið á Gaza er farið að bíta ferðaþjónustuna í Ísrael en Ísraelsmenn eru reiðir vegna ákvörðunar bandarísku flugmálastjórnarinnar, FAA, sem bannaði bandarískum flugfélögum að fljúga til Tel Aviv, annarrar stærstu borgar landsins í gær. Það var gert vegna nokkurra eldflauga Hamas sem sprungu í nágrenni flugvallarins og flest evrópsk flugfélög fóru að dæmi Bandaríkjamanna.

Yisrael Katz samgönguráðherra Ísraels segir þessa ákvörðun brjóta í bága við reglur FAA, engin hætta fylgi flugi til Tel Aviv. Ákvörðun FAA hafi orðið til þess að evrópsk flugfélög, en þó ekki öll, hafi hætt flugi sínu tímabundið.

Farþegar á Frankfurt flugvelli sem bókað áttu flug í dag höfðu hins vegar skilning á varfærni flugfélaganna. Flestir þeirra sögðu skiljanlegt í ljósi þess að farþegaþota hefði nýlega verið skotin niður yfir Úkraínu, að flugfélögin sýndu varfærni.

Það er hins vegar ljóst að Ísraelsmenn eru ekki sáttir við þau áhrif sem það hefur og kann að hafa hætti alþjóðleg flugfélög til langs tíma að fljúga til Tel Aviv. Katz segir að það eigi ekki að gera hryðjuverkamönnum Hamas það til geðs að stöðva áætlunarflug til Tel Aviv, þegar engin hætta sé á flugvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×