Erlent

Ísraelski hermaðurinn dæmdur í 18 mánaða fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Elor Azaria í dómsal.
Elor Azaria í dómsal. Vísir/EPA
Ísraelski hermaðurinn Elor Azaria hefur verið dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar fyrir manndráp. Hann skaut særðan og óvopnaðan Palestínumann í höfuðið eftir að sá síðarnefndi stakk annan ísraelskan hermann.

Palestínumaðurinn, Abdel Fattah al-Sharif, hafði stungið annan ísraelskan hermann í borginni Hebron og var særður. Fimmtán mínútum síðar, þar sem Sharif lá á jörðinni skaut Azaria hann í höfuðið.

Dómarinn sagði að Azaria hefði ekki skotið manninn í sjálfsvörn og benti á vitnisburði yfirmanns Azaria og sjúkraflutningamanns. Þeir sögðu Azaria hafa sagt að Sharif ætti „skilið að deyja“ skömmu áður.

Yfirmenn hersins hafa fordæmt manndrápið, en margir hafa hrósað Azaria fyrir verknaðinn. Þá hefur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, lýst því yfir að hann myndi styðja mögulegar aðgerðir til að fá Azaria náðaðan.

Azaria hefði getað verið dæmdur í allt að tuttugu ára fangelsi, en saksóknarar höfðu samkvæmt frétt BBC kallað eftir því að hann yrði dæmdur í þriggja til fimm ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×