Erlent

Ísraelska þingið samþykkir umdeild lög

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ræðir við Reuven Rivlin, forseta Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ræðir við Reuven Rivlin, forseta Ísraels. VÍSIR/AFP
Knesset, ísraelska þingið, hefur samþykkt lög sem leyfa það að fæði sé neytt ofan í fanga sem eru í hunguverkfalli.

Samkvæmt lögunum þarf dómari að gefa leyfi í hverju tilviki fyrir sig.

Palestínubúar sem eru í haldi í ísraelskum fangelsum hafa gripið til þess ráðs að fara í hungurverkföll. Er það gert til að mótmæla því að hægt sé að halda þeim í gæsluvarðhaldi án ákæru eða réttarhalda.

Samtök lækna í Ísrael hafa fordæmt setningu laganna og segja að þvingun fæðis ofan í fanga sé ígildi pyntinga. Jafnframt hafa samtökin hvatt lækna til þess að taka ekki þátt í þessu athæfi.

Læknasamtökin ætla að fara með málið fyrir Hæstarétt Ísraels en lögin voru samþykkt með naumum meirihluta, 46 þingmenn sögðu já en 40 þingmenn nei.

Ráðherra innanríkisöryggismála Ísrael, Gilad Erden, telur þessa ráðstöfun vera nauðsynlega en lagafrumvarpið var samið í kjölfar fjölda hungurverkfalla palestínskra fanga sem haldið var án ákæru eða réttarhalda árið 2012.

„Hungurverkföll hryðjuverkamanna eru orðin að tækjum til þess að setja pressu á ísraelska ríkið til þess að leysa hryðjuverkamenn úr haldi.“

Fyrr í mánuðinum var palestínska fanganum Khader Adnan sleppt úr haldi úr ísraelsku fangelsi eftir 56 daga hungurverkfall. Honum hafði verið haldið án ákæru í eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×