Erlent

Ísraelar hnýta í Brasilíumenn vegna 7-1

Atli Ísleifsson skrifar
Brasilíumenn voru í öngum sínum eftir 7-1 tap sinna mann gegn Þjóðverjum í undanúrslitum HM fyrr í mánuðinum.
Brasilíumenn voru í öngum sínum eftir 7-1 tap sinna mann gegn Þjóðverjum í undanúrslitum HM fyrr í mánuðinum. Vísir/AP
Talsmenn ísraelskra yfirvalda hafa kallað Brasilíu „diplómatískan dverg“ og hnýtt í landið vegna 7-1 taps þeirra gegn Þjóðverjum á HM fyrr í mánuðinum. Er þetta gert eftir að brasilísk stjórnvöld fordæmdu valdbeitingu Ísraelshers á Gaza og ákváðu að kalla sendiherra sinn heim frá Tel Aviv.

Í frétt Washington Post segir að talsmaður brasilískra yfirvalda hafi sagt viðbrögð Ísraelshers á Gaza ekki hafa verið í hlutfalli við tilefnið. Brasilía er annað landið sem kallar sendiherra sinn heim frá Ísrael vegna ástandsins á Gaza, en Ekvadór gerði slíkt hið sama í síðustu viku.

Yigal Palmor, talsmaður ísraelska utanríkisráðherrans, sagði málið óheppilegan vitnisburð þess að Brasilía, þessi efnahagslegi og menningarlegi risi, „væri enn diplómatískur dvergur. Þessi siðferðislega afstæðishyggja sem liggur að baki þessari ákvörðun gerir Brasilíu að diplómatískum samstarfsaðila okkur óviðkomandi, þar sem hann skapar vandamál í stað þess að stuðla að lausnum.“

Palmor sagði viðbrögð Ísraelsmanna á Gaza vera í fullkomlega réttu hlutfalli við alþjóðalög. „Þetta er ekki fótbolti. Þegar leik lýkur með jafntefli í fótbolta, má líta á hluti vera í réttum hlutföllum, en þegar leiknum lýkur 7-1 er ekki svo. Mér þykir leitt að segja það en svo er ekki í raunveruleikanum og í alþjóðalögum.“

Luiz Alberto Figueiredo, utanríkisráðherra Brasilíu, svaraði þessu með því að segja Brasilíu vera eitt af ellefu ríkjum heims sem ættu í stjórnmálasambandi við öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Þá státi landið af sögu friðar og hafi talað fyrir friðaraðgerðum víðs vegar um heim. „Ef til eru diplómatískir dvergar þá er Brasilía ekki einn þeirra.“

Í grein Washington Post segir að brasilísk yfirvöld hafi ekki brugðist sérstaklega við athugasemdinni um 7-1 tap Braslíumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×