Skoðun

Íslömsk bókstafstrú og fasismi

Stefán Karlsson skrifar
Hamed Abdel-Samad er fæddur í Kaíró árið 1972 en hefur lengst af búið í Þýskalandi og er þýskur ríkisborgari. Hann er með víðtæka menntun á sviði tungumála og stjórnmálafræði og er meðal þekktari fræðimanna sem fást við stöðu íslam í samtímanum. Hamed Abdel-Samad er fyrrverandi liðsmaður Múslímska bræðralagsins en sagði skilið við samtökin og er nú einn af þeirra hörðustu gagnrýnendum. Ávöxtur þeirrar gagnrýni eru nokkrar bækur sem hann hefur skrifað um íslam þar sem áhersla er lögð á aðlögun trúarinnar að nútímasamfélögum. Þekktust rita hans er bókin Íslamismi of fasismi þar sem hann bendir á skyldleika íslamskrar bókstafstrúar og fasisma. Þessi grein byggir á fyrirlestri sem bókarhöfundur hélt við listaháskóla í Hamborg þar sem hann greinir frá inntaki þeirrar bókar.

Viðbrögð við breyttri heimsmynd 

Fyrirlesarinn bendir á að fasisminn hafi komið fram í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar. Hann var ávöxtur ósigurs og niðurlægingar og hann byggðist á ósk um hefnd og löngun til að stofna nýtt heimsveldi. Fyrri heimstyrjöldin markaði endalok nokkurra heimsvelda og stórvelda. Keisaradæmið í Rússlandi hrundi og það ruddi brautina fyrir kommúnismann. Austurrísk-Ungverska keisaradæmið leið undir lok, einveldið í Þýskalandi var laskað, keisarinn varð að segja af sér og fasistar færðu sér í nyt það tómarúm sem skapaðist af þessu ástandi. Ottómanveldið leystist einnig upp eftir stríðið og arabísku ríkin, sem höfðu tilheyrt því, urðu verndarsvæði Frakklands og Stóra-Bretlands.

Eins og fasisminn vaknaði íslamisminn – sem á sér reyndar sögu löngu fyrir nýlendustefnuna og tilkomu Ísraels – til lífsins sem viðbrögð við þessu ástandi og hann vildi endurreisa kalífadæmið. Það er þetta sem bókarhöfundur á við þegar hann talar um að íslamisminn og fasisminn hafi sprottið upp á sama tímabili og úr sama hugarfarslega jarðvegi. Báðar þessar hugmyndafræðistefnur leiddu til öndvegis nýja sjálfsmynd. Um þetta leyti – á þriðja áratug tuttugustu aldar – voru mynduð fyrstu íslömsku samtökin í Egyptalandi og Indlandi. Maududihreyfingin var stofnuð í Indlandi árið 1924 og Hitler var hennar átrúnaðargoð. Hassan al-Banna stofnaði Íslamska bræðralagið í Egyptalandi árið 1928 og átrúnaðargoð hans var Mussolíni. Eins og í fasismanum var leiðtogadýrkunin þungamiðja þessara hreyfinga. Þar má líka nefna hugmyndina um skilyrðislausa hlýðni og heimsyfirráð. Innsti kjarni þeirra birtist einnig í hugmyndunum um að berjast, hryðjuverkastarfsemi og að sá skelfingu í hjörtu andstæðinganna. Þetta var upphafið á íslömskum fasisma.

Munurinn á íslamisma og múslímskum átrúnaði 

Höfundur tekur fram að hér sé ekki um að ræða fasískt íslam heldur íslamskan fasisma. Þjóðverjar séu aldrei móðgaðir vegna hugtaksins þýskur fasismi. Hann sé raunveruleiki og hluti af þýskri sögu en það þýði ekki að allir Þjóðverjar séu fasistar. Það sama sé átt við þegar talað er um íslamskan fasisma og það sé ekki ætlunin að móðga alla múslíma með þessari hugtakanotkun. Það verði að gera skýran greinarmun á múslímum sem einstaklingum og hugmyndafræði íslamismans. Stefnurnar tvær, fasismi og íslamismi, sem byggjast á því að skipta heiminum upp í gott og illt, er að finna á hinu hugmyndafræðilega plani. Þetta séu hugmyndafræðistefnur sem þrífast á hatri, reiði, niðurlægingu og samsæriskenningum. Þær ali á hugmyndum um eigin ágæti, sérstöðu og siðferðislega yfirburði og líta niður á þau mannanna börn sem ekki tilheyra þeirra tjaldbúðum. Þær eitri huga fylgismanna sinna með hatri og reiði gegn allri heimsbyggðinni.

Báðar þessar hugmyndafræðistefnur líta á baráttuna sem markmið í sjálfu sér en ekki sem tæki til að ná pólitískum markmiðum. Fylgismenn þeirra berjast ekki til að lifa heldur lifa til að berjast sem meðal annars birtist í hugmyndinni um jíhad. Upphafning dauðans, leyndardómur píslavættisins og sú hugmynd að þær séu handhafi hins endanlega sannleika eru mjög mikilvæg atriði í báðum stefnunum.

Tengsl fasisma og íslamisma 

Á fjórða áratugnum byrjaði Múslímska bræðralagið að mynda samtök í anda SA og SS í Þýskalandi nasismans og það hóf að innræta börnum hugmyndafræði sína frá unga aldri eins og gilti um Hitlersæskuna.

Íslamisminn og fasisminn hafa bæði félagsleg og pólitísk markmið. Með tilliti til félagslegra markmiða eru þessar stefnur báðar andnútímalegar og andupplýsingasinnaðar. Íslamisminn er gagnbylting gegn upplýsingastefnu, einstaklingshyggju og hugmyndinni um persónufrelsi. Báðar stefnurnar hafna ritfrelsi og skoðanafrelsi. Þær líta á einstaklingshyggju sem frávik þar sem hugmyndafræði þeirra gengur út á að samfélagið sé samhangandi heild án fjölbreytni og möguleika á sérstöðu og frumkvæði einstaklingsins. Allir verða að haga sér eins, fylgja sama markmiðinu og að sjálfsögðu verða allir að hlýða leiðtoganum. Nútímalist er siðspillt. Hún er hættuleg vegna þess að hún er tjáning á einstaklingshyggju en ekki vegsömun á vissir hugmyndafræði sem fasistar og íslamistar aðhyllast. Loks má benda á að báðar þessar stefnur deila drauminum um heimsyfirráð og líta á sig sem útvalið fólk í heilagri baráttu sem hefur það að markmiði að stjórna öllu mannkyninu.

Í tilfelli fasismans eru hinir útvöldu aríski kynstofninn en í tilfelli íslam er það hið upphafna íslamska samfélag (úmman), sem er besta samfélagið sem hefur verið stofnað fyrir mannkynið samkvæmt Kóraninum. Það er samfélag sem hefur móttekið síðasta boðskap guðs og síðustu bók hans og sækir því lögmæti sitt til að ákveða hvað gerist í heiminum beint til guðs.

Múslímska bræðralagið lét ekki bara staðar numið við kenninguna. Það kom á laggirnar tengslum við Þýskaland nasismans. Auk dálætis al-Bannas á Hitler og Mússolíni höfðu samtökin tengsl við Þýskaland nasismans á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Múslímska bræðralagið rak mikinn áróður fyrir nasistana í Egyptalandi og fullyrti jafnvel að Hitler hefði snúist til íslam og kallaði hann „Hai Mohamed Hitler.“ Fullyrt var að hann hefði farið í leynilega pílagrímsferð til Mekka og myndi brátt frelsa Egypta undan Bretum. Gott dæmi um náið samstarf þessara aðila birtist líka í sögunni um múftann í Jerúsalem en Múslímska bræðralagið var með starfsemi í Palestínu á þessum tímum. Þessi maður, Hag Amin al-Hussein, komst undan Bretum frá Bagdad til Berlínar þar sem Hitler tók höfðinglega á móti honum og gaf honum veglegt húsnæði. Hitler byggði jafnvel fyrir hann útvarpsstöð en frá henni sendi múftinn nasistaáróður til íslamska heimsins á öllum helstu tungumálum sem þar eru töluð og ýtti með því undir gyðingahatur á svæðinu. Múftinn lýsti yfir heilögu stríði í þágu Hitlers og safnaði í því skyni múslímskum nýliðum á Balkanskaga sem börðust fyrir Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni. Í þakklætisskyni gaf Hitler múslímum landsvæði í Munchen og á því var síðan reist moska sem hýsir ennþá höfuðstöðvar Múslímska bræðralagsins í Þýskalandi.

Þessar tvær íslömsku hreyfingar, Maududi og Múslímska bræðralagið, gátu af sér fjölda íslamskra hreyfinga. Talíbanahreyfingin í Afganistan og Pakistan sækir hugmyndafræði sína til Maududihreyfingarinnar og Takfir wal-Hirja og fjölmörg önnur hryðjuverkasamtök eru klofningsbrot úr Múslímska bræðralaginu. Báðar þessar hreyfingar mættust í Afganistan á tímum stríðsins gegn Sovétríkjunum og stofnuðu Al Qaeda. Þetta er í raun og veru saga hryðjuverka. 



Múslímska bræðralagið hefur verið að kenna hugmyndafræðina um jíhad og kalífadæmið í skólum og moskum. Afraksturinn er tilkoma ISIS samtakanna. Þau samtök spruttu ekki upp úr tómarúmi og ástæða þess að þau komu fram stafaði ekki af því að Bandaríkjamenn „drógu sig of snemma út úr Írak“ heldur af því að hugmyndafræði þeirra hefur verið kennd í skólum, menntastofnunum af ýmsu tagi og moskum í Mið-Austurlöndum og Evrópu. Bókarhöfundur tekur fram að ýmsar félagslegar, pólitískrar, hagfræðilegar og persónulegar ástæður ráði því hversu sterkur þessi hópur er núna. Hins vegar ríkir ágreiningur um aldur þeirrar hugmyndafræði sem liggur honum til grundvallar. Má rekja hana rúmlega áttatíu ár aftur í tímann til 1928 eða er hún 1400 ára gömul?

Hvernig greina ber á milli íslam og íslamisma 

Höfundur tekur fram að þessi ágreiningur snúist um spurninguna hvernig greina beri á milli íslam og íslamisma. Hann segist venjulega hafa gert það uns hann hafi áttaði sig á að slík aðgreining komi ekki neinum að gagni nema íslamistunum. Það sé athyglisvert að margir múslímar kvarti yfir því að opinská umræða um trúna sé vatn á myllu hægri manna sem misnoti Kóraninn til að skapa andúð á trúnni en víkja sér undan að gagnrýna hvernig íslamistar og íslömsk samtök á borð við ISIS samtökin misnota helgiritið í þágu haturs of ofbeldis. Fyrirlesarinn gefur í skyn að í þessum tvískinnungi felist sú viðurkenning að trúin geti tekið á sig óæskilega birtingarmynd en málið sé svo viðkvæmt fyrir íslam að ekki megi stinga á því kýli og tipla verði á tánum í gagnrýninni. En ef hugmyndir Kóranins eru svona viðkvæmar fyrir misnotkun og að sjálft almættið getur ekki einu sinni varið sína eigin bók hvernig sé þá hægt að ætlast til að hann dauðlegur maðurinn geti varið hana fyrir misnotkun.

Fyrirlesarinn spyr hvað menn eigi raunverulega við þegar þeir tala um misnotkun. Hann tekur fram að hann sé veraldlega þenkjandi, vantrúaður maður sem aðhyllist ekki nein sérstök trúarbrögð og að hann sé ekki aðeins gagnrýninn á íslam heldur trúarbrögð almennt.

Nauðsyn þess að aðgreina veraldlega og andlega þætti í íslam 

Með því að beita gagnrýninni hugsun sé hins vegar hægt að fullyrða að krossfarar á miðöldum hafi misnotað kenningar Jesú. Ástæðan sé sú að þegar kenningar hans eru skoðaðar sé hvergi að finna skipanir um að drepa vantrúaða, leggja undir sig lönd eða brenna syndara. Orð Jesús í Nýja testamentinu „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ beri því m.a. vitni. Af þeim sökum sé með réttu hægt að kalla illvirki sem eru framin í nafni kristindómsins misnotkun á kenningum Krists og hægt sé að gagnrýna kirkjuna ef hún misstígur sig og krefjast þess að hún snúi sér aftur að því sem Jesús sagði og gerði.

Það sama verði hins vegar ekki sagt um íslam. Fyrirlesarinn bendir á að í 206 köflum í Kóraninum séu stríð og ofbeldi vegsömuð, í 25 köflum sé skipað fyrir um dráp á vantrúuðum og finna megi tvær skipanir um að afhöfða fólk. Í því ljósi sé misnotkun ekki rétta orðið heldur túlkun. Það séu í raun og veru til margar ólíkar túlkanir á Kóraninum og íslam en að því er virðist hafi þessar ofbeldisfullu túlkanir náð yfirhöndinni í augnablikinu. Pólitískt íslam sé ráðandi birtingarmynd trúarinnar nú um stundir. Með þetta í huga sé ljóst að hugtakið misnotkun sé ekki rétta orðið heldur eigi hugtakið túlkun betur við þegar menn bregðast við þeirri hugmyndafræði sem skiptir veröldinni upp í gott og illt, trúaða og vantrúaða og boðar heilagt stríð og heimsyfirráð.

Höfundur lítur svo á að eitt meginverkefni íslamska trúarsamfélagsins í samtímanum sé að greina á milli trúarlegra þátta í boðun Múhameðs og skoðana hans á sviðu veraldlegra umsvifa sem eru bundin við sögulega tilfallandi aðstæður. Í því sambandi spyr fyrirlesarinn hvort þessar hugmyndir séu bara hundrað ára gamlar eða hvort þær hafi verið til staðar allt frá byrjun þegar horft sé til sögu íslam. Hann segir að íslam eigi sér að sjálfsögðu andlega hlið sem hafi á sér mildara yfirbragð. Hann hafi dvalið um tíma meðal súfista og þekki þau uppbyggjandi áhrif sem þeirra andlega ástundun hafi. Og að sjálfsögðu sé að finna í íslam athyglisverðar kenningar sem tryggja félagslega samstöðu innan íslamska samfélagsins. Hins vegar hafi íslam allt frá upphafi átt sér óæskilegar lagalegar og pólitískar hliðar sem hafi runnið saman við andlega þáttinn. Ástæðan sé að finna í lífshlaupi spámannsins. Gagnstætt Múhameð gegndi Jesús aldrei neinni pólitískri stöðu eða embætti, stofnaði aldrei ríki eða hafði með höndum fjárhagslega umsýslu. Hann var farandprédikari sem reikaði um á sviði veraldarsögunnar í aðeins 18 eða 30 mánuði og flutti boðskap sinn. Múhameð var hins vegar spámaður, herforingi, fjármálaráðherra, löggjafi, dómari og lögreglumaður í 23 ár. Öll þessi viðfangsefni sem hann sinnti og umsagnir hans í tengslum við þau runnu saman við trúarlegar kenningar hans. Enginn gerði nokkurn tímann tilraun til að skilja þarna á milli. Allt sem spámaðurinn sagði einhvern tímann og allt það sem Kóraninn segir um þessi málefni eru sjálfkrafa hluti af trúnni. Þetta er það sem bókarhöfundur kallar óæskilega fylgifiska eða fæðingargalla trúarinnar.

Íslam sem pólitísk trúarbrögð jafngilda stöðnun

Kristnidómurinn hafi hins vegar orðið að þrauka í 300 ár sem minnihlutahópur á jaðri samfélagsins og valdastofnana þess. Og þegar menn upplifi sig sem ofsótta sé auðvelt að aðhyllast veraldarhyggju. Þegar kristindómurinn hafi orðið hluti af valdakerfi rómverska heimsveldisins hafi talsmenn hans breyst í framgöngu sinni og farið að gangast upp í valdbeitingu. Það sýni að hvenær sem trúarbrögð renni saman við pólitískt vald, við valdastéttina, verði fjandinn laus. Og þar eð íslam naut pólitískrar velgengni allt frá byrjun sé erfitt að slíta þá trú úr samhengi við valdakerfið. Sú þróaða siðmenning sem hófst á 8. öld hafi vissulega átt hlutdeild í þessari velgengni. Margir múslímar nú á tímum fullyrði að Evrópa hafi hafi þurft á veraldarhyggju að halda vegna þess að kirkjan stóð gegn vísindum og framförum. Íslam hafi hins vegar sameinað arabíska ættbálka sem voru í stríði við hvor annan í umhverfi þróaðrar siðmenningar sem var umburðarlynd og í forystu í heiminum á sviði heimspeki og vísinda. Síðan nefni þeir venjulega staði eins og Bagdad á 9. öld og Andalúsíu á 8. öld til 11. aldar.

Höfundur segist túlka þetta tímabil sögunnar með ólíkum hætti. Hvar var þessi þróaða siðmenning? spyr hann. Í Bagdad, Damaskus, Cordoba og Kaíró. Og hann heldur áfram að spyrja. Hvers konar borgir voru þetta? Hvers vegna ekki Mekka og Medína þar sem íslam kom fram? Hvenær voru Mekka og Medína borgir umburðarlyndis? Frá dauða Múhameðs til dagsins í dag er þeim sem eru ekki múslímar bannað að koma til þessara borga. Hvar er fjölbreytnina að finna þar? Voru einhverjir háskólar í þessum borgum sem kenndu heimspeki? Voru einhverjir heimspekingar eða veraldlegir hugsuðir í þessum borgum? Hvar voru þeir? Í Bagdad, Kaíró, Damaskus og Cordoba. Bagdad var hluti af persneska heimsveldinu. Og þessir gömlu vísindamenn voru allir Persar. Sumir þeirra voru í raun og veru guðleysingjar. Avicenna sem allir hylla sem arabíska vísindamanninn var Persi og hann var ekki íslamtrúar. Það eru hugsuðir á borð við hann og samruni mismunandi menningarstrauma sem lögðu sitt af mörkum til menningarinnar og þekkingarinnar. Ekki trúarbrögðin vegna þess að þau telja sig vera handhafa ófrávíkjanlegs sannleika og slík afstaða kæfir alla frekari þekkingarleit.

Í því sambandi bendir höfundur á að hvenær sem menning nái að blómstra hafi saría ekki leikið neitt hlutverk í löggjöfinni. Í Bagdad, Andalúsíu og Kaíró hafi verið fullt af börum þar sem áfengir drykkir voru hafðir um hönd. Það sé bannað í íslam samkvæmt saríalögum og fyrir það sé mönnum refsað með hýðingum. Við hirð kalífans í Bagdad á 9. öld hafi verið ljóðskáld þar sem gyðingar, kristnir menn og múslímar gerðu gys að trúarbrögðum hvers annars með kveðskap sínum. Þá þurftu Múhameð og Kóraninn að þola gagnrýni við hirð kalífans í Bagdad og enginn var hálshöggvinn fyrir það. Ástæðan sé sú að menn bjuggu við sjálfstraust og þá yfirvegun sem henni fylgir. Ef menn þjáist af lágu sjálfsmati og finna fyrir vanmáttarkennd og hafa ekki lagt neitt af mörkum til mannkynsins í þúsund ár séu þeir viðkvæmir fyrir móðgunum þegar spámaðurinn er gagnrýndur. Það sé ástæðan fyrir því að sendiráð brenna þegar Kóraninn er gagnrýndur. Og í hvert skipti sem saríalögum var komið á laggirnar í samfélaginu hafði það stöðnun í för með sér. Að sjálfsögðu hafi komið blómaskeið inn á milli en eftir því sem tímar liðu hafi bókstafstrúaðir og íhaldssamir múslímar náð undirtökunum og því hafi þróunin orðið með þeim hætti sem raun ber vitni.

Íslam í nútímanum: Prentlistin og internetið 

Fyrirlesarinn bendir á að einföld uppgötvun hafi breytt högum mannkynsins til frambúðar og að íslamski heimurinn hafi farið varhluta af þeirri þróun í fyrstu. Þessi uppgötvun var prentlistin sem kom fram fyrir u.þ.b. 500 árum. Uppgötvun Gutenbergs hafi bundið enda á einokun á þekkingu og breytt þar með menningunni. Fyrir þann tíma hafi kirkjan og aðallinn verið einu aðilarnir sem áttu bækur vegna þess að þær voru handskrifaðar og það voru aðeins til fáein eintök af hverri bók. Prentlistin hafi haft gríðarleg áhrif á menningu og þekkingu og stuðlaði að gagnrýnni hugsun. Í kjölfar hennar kynnti Marteinn Lúther sínar 95 greinar sem mörkuðu upphaf siðaskiptanna. Siðbreyting Lúthers hefði ekki náð fram að ganga án prentlistarinnar. Hún hafi gert almenningi kleift að lesa Biblíuna sjálfa og þá einnig á Þýsku. Þetta markaði upphafið á trúarbragðagagnrýni vegna þess að prentlistin leiddi til afhelgunar trúarbragða.

Fyrirlesarinn segir að allur heimurinn hafi viljað fá hlutdeild í þessari uppgötvun. Allir hafi verið opnir og spenntir fyrir henni. Aðeins eitt menningarsvæði hafi óttast hana. Ottómanveldið stjórnaði stærstum hluta af íslamska heiminum á 16. öld og trúarlegir skólar í ríkinu höfnuðu þessari uppgötvun. Ástæðan var sú að þeir óttuðust að það myndi spilla Kóraninum og þegar spillt afbrigði að helgiritinu kæmist í umferð myndu þeir missa tökin og líka einokun sína á túlkunum. Af þessari ástæðu höfnuðu þeir prentlistinni og það tók hana þrjár aldir að berast til Istanbúl. Þangað barst hún árið 1729 og til Kaíró árið 1798. Það var stuttu eftir frönsku byltinguna sem var undanfari innrásar Napóleons í Egyptaland. Þá kynntust Egyptar prentlistinni en trúarskólarnir í Alexandríu brugðust við með því að mölbrjóta prentplöturnar. Þeir voru hræddir og sögðu að þetta væri djöfulleg uppfinning.

Fyrirlesarinn segir að í slíkum viðbrögðum birtist bókstafstrúin í hnotskurn. Í þeim endurspeglist kjarninn í hugmyndafræði ISIS, að halda upplýsingum frá fólki og stinga þannig höfðinu í sandinn vegna ótta við að glata trúarlegri sjálfsmynd sinni og að gagnrýnin umræða muni ná að sá fræjum efa í hjörtu manna. Með því hafi íslamski heimurinn misst af tækifæri til að fylgjast með þeirri umræðu sem átti sér stað í Evrópu þar sem fram fór gagnrýni á trúarbrögð og rætt var um hugmyndir heimspekinga eins og t.d. Kants og Rousseau og eins kenningar um ríkið og félagslegan sáttmála. Á sama tíma hafi wahabisminn mótað Sádi-Arabíu. Þessi menningarlega gjá hafi ennþá áhrif í heiminum. Seinna hafi önnur uppfinning haldið innreið sína í arabíska heiminn og trúarlegir skólar þar reyndu einnig að stöðva hana. En í þetta skipti mistókst þeim segir fyrirlesarinn. Þessi uppfinning var internetið. Internetið reyni núna að elta uppi þá þróun sem múslímski heimurinn fór varhluta af síðustu 500 árin. Með því hafi skapast nýr þekkingargrunnur sem hafi haft áhrif á menninguna. Skoðanaskipti og deilur unga fólksins í arabíska heiminum fari nú fram með öðrum hætti en áður. Fyrirlesarinn tekur fram að sín kynslóð hafi ekki þekkt internetið. Það sem kennarinn hans sagði hafi hann orðið að taka sem gefnum hlut. Nú til dags gúgli stúdentarnir það sem kennararnir segi á snjallsímum sínum á meðan þeir eru að tala. Þannig geti þeir bent lærifeðrum sínum á að þeir hafi rangt fyrir sér svo að þeir verða að gæta betur að því sem þeir segja. Þetta hafi leitt af sér nýja tegund skoðanaskipta. Allar þessar færslur, skoðanaskipti og umræður á Facebook séu gríðarlega umfangsmiklar og gangi hratt fyrir sig. En tímabilið milli Gutenberg og Zuckerberg (eins af stofnendum Facebook) sé mjög langt og erfitt að brúa. Og múslímski heimurinn hafi glatað miklu á þessu tímabili.

Þörfin fyrir upplýsingar og lýðræði 

Þannig séu aðstæðurnar í arabíska heiminum. Þar séu hins vegar ekki allir íslamistar heldur þvert á móti. Þetta málefni snúist um innbyrðis menningarárekstra. Annars vegar er um að ræða kynslóð sem vilji frelsa sjálfa sig, kynslóð sem hefur uppgötvað einstaklingshyggju og gagnrýna hugsun og vilji lifa með öðrum hætti og hins vegar kynslóð sem er föst í trúarlegu og stöðnuðu feðraveldisfyrirkomulagi. Baráttan þarna á milli sé ofsafengin. Ef við viljum því gera greinamun ættum við ekki að gera hann á milli íslam og íslamisma heldur á milli íslam og múslíma. Það séu margir múslímar og líka þeir sem eru trúaðir sem hafa alla tíð hafnað pólitískum metnaði trúar sinnar og leggja áherslu á andlega hlið hennar og ef til vill vissar venjur sem henni fylgja. Á þetta ættum við að leggja áherslu segir fyrirlesarinn. Mannlegar veru séu mikilvægari en hugmyndafræðin og bókin. Hann segir að þegar hann hafi verið félagsmaður í German Islamic Conference hafi hann hafnað hugmyndinni um íslamófóbíu (íslamfælni). Að hans dómi eigi múslímafóbía (múslímafælni) betur við. Ríkinu hafi ekki verið ætlað að vernda trúarbrögð eða hugmyndafræði frá gagnrýni. Það sé ekki hlutverk þess heldur að vinna að velferð borgara sinna og allra þeirra sem lifa undir þess stjórn, hverjir sem þeir eru.

Fyrirlesarinn gagnrýnir að fólk fái enga vinnu vegna þess að það beri múslímskt nafn. Öll lýðræðissamfélög ættu að vekja máls á því ástandi og gagnrýna það. Á sama tíma telur hann að með því að gagnrýna íslam sé í raun og veru verið að gera múslímum mikinn greiða. Það sé líka tími til kominn að sú gagnrýni komi frá múslímum sjálfum sem búa yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu á málefninu. Þegar sumir múslímar kvarti og segi að þessi gagnrýni sé bundin við hægrimenn þá hvetur hann þá til að taka málin í eigin hendur og gagnrýna sjálfir. Sú réttlætingarbarátta fyrir íslam sem hefur verið stunduð hjálpi hvort er eð ekki neinum. Það sé þýðingarlaust að endurtaka í sífelli möntruna, „Þetta hefur ekkert með íslam að gera.“ Þetta hafi þvert á móti allt með íslam að gera. Það sé staðreynd. Og múslímar þurfi að ákveða sig hvers konar íslam þeir vilja lifa við og hvers konar íslam þeir vilja bjóða almenningi upp á. Það sé á þeirra valdi. Það eina sem þeir sem standa fyrir utan geta lagt til málanna er að allt sem víkur frá frelsi og mannréttindum – alveg sama hver á í hlut og hvað sem allri réttlætingu líður – á ekki heima í samfélagi okkar. Stjórnmálamenn verða að taka það skýrt fram og gera það lýðum ljóst.

Ríkið ætti ekki að fela múslímska þegna sína á vald íslamskra stofnana í þágu aðlögunar. Þær ættu ekki að fá meiri völd, áhrif og sérmeðferð með tilliti til menntunar, klerklegrar ráðgjafar, líknarstarfsemi, íslamskrar bankastarfsemi og kröfugerðar um sérstakt mataræði í skólum og vinnustöðum. Fyrirlesarinn segir að ef við förum að leggja út á þessa braut séum við að opna flóðgáttir fyrir miklu meira sem á eftir fylgi. Fyrstu innflytjendurnir sem komu til Þýskalands hafi borðað það sem þeir fundu í stórverslunum og engum fannst það vera lítilsvirðing við trú sína. Þeir fundu það sem þeir leituðu að.

Þetta byrjaði allt með kröfunni um sérstakt mataræði eins og t.d. halalslátrað kjöt, umræðunni um að konur verði að bera slæður og sérstökum kröfum í tengslum við sundnámsskeið. Fyrirlesarinn segist hafa verið í Finnlandi tveimur vikum fyrir fundinn og kennararnir þar hafi sagt honum að múslímskum börnum væri ekki leyft að sækja tónlistarnámskeið vegna þess að foreldrar þeirra vildu það ekki. Þau séu í tíma en fái heyrnartól þar sem þau geti hlustað á tilvitnanir úr Kóraninum. Það sé þannig sem þetta byrji og það muni ekki stoppa vegna þess að menn sjái ekki sarísku viðvörunarljósin. Saría sé hugtak og þegar það byrjar að ryðja sér til rúms muni það ekki stoppa. Með andvaraleysi okkar og með því að vekja máls á slíkri eftirgjöf séum við að vekja upp hatur og reiði gagnvart múslímum.

Fyrirlesarinn segir að við verðum að hafa í huga að sumar íslamskar stofnanir séu gegnsýrðar af öfgastefnu og áhrifum frá erlendu valdi og ekki sé hægt að treysta á þetta fólk sem samstarfsaðila. Það prédiki jíhad og kalífadæmi í moskunum og þykist samt vilja taka höndum saman við vestræn stjórnvöld í baráttunni gegn innrætingu og öfgastefnu. Hann bendir á að þeir sem gengu til liðs við vestræn stjórnvöld í baráttunni við ISIS samtökin séu Tyrkland, Katar og Sádi-Arabía. Spurningin sé því sú að ef þetta eru bandamenn okkar, hver sé þá óvinurinn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×