Lífið

Íslenskur söngleikur settur upp í New York

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bergur Þór Ingólfsson og Ívar Páll Jónsson standa hér fyrir framan leikhúsið þar sem töfrarnir gerast.
Bergur Þór Ingólfsson og Ívar Páll Jónsson standa hér fyrir framan leikhúsið þar sem töfrarnir gerast. Mynd/Úr einkasafni
Ívar Páll Jónsson, tónsmiður, ræðst ekki á garðinn sem hann er lægstur en hans fyrsti söngleikur verður frumsýndur þann 13. ágúst næstkomandi í Minetta Lane Theater í New York borg.

„Það er smá stress að hreiðra um sig núna. Maður er svolítið að leggja sjálfan sig á borðið. Þetta er allt samið af mér. Minn húmor. Minn andhúmor. Mín tónlist. Mitt handrit,“ sagði Ívar Páll þegar Fréttablaðið náði af honum tali.

Söngleikur ber nafnið „Revolution in the elbow of Ragnar Agnarsson furniture painter“ eða Bylting í olnboga húsgagnamálarans Ragnars Aðalsteinssonar. „Þetta er saga um ást, blekkingu og þegar fólk týnir sér í einhverjum óraunveruleika.“ Eins og titill verksins ber með sér verður bylting í sögunni sem líkja má við hrunið á Íslandi. „Fólk býr í einhverjum sýndarveruleika þar sem raunveruleikinn bankar upp á.“

Vinnan á bakvið verkið hófst árið 2011. Þá fyrst fór Ívar að semja beinagrind að söngleik og lög inn í þar sem við átti.

„A Completely Surreal Icelandic Musical Has One of the Best Soundtracks of the Year“

„Það var strategískt hjá mér að hafa tónlistina á sem frambærilegustu formi svo hún myndi toga verkið áfram,“ útskýrir Ívar. Hann fékk Stefán Örn Gunnlaugsson, tónlistarstjóra sýningarinnar, snemma í lið með sér og saman tóku þeir upp lögin. „Hann á mikinn heiður af því hversu vel tónlistin heppnaðist.“

Það eru engar ýkjur hjá Ívari en verkið er strax farið að vekja athygli erlendis fyrir tónlistina. Í New York Village Voice birtist á miðvikudag grein um verkið sem ber titillinn: „A Completely Surreal Icelandic Musical Has One of the Best Soundtracks of the Year“ eða „Algjörlega súrrealískur íslenskur söngleikur geymir eina bestu tónlist ársins.“

Snemma á síðasta ári funduðu Ívar og Stefán með Óskari Eiríkssyni hjá Theater Mogul sem féllst á að taka verkið að sér. Verkið hefur því verið lengi í fæðingu og er ekki tilbúið enn. „Þetta verður ekki fullbúið fyrr en á frumsýningu,“ segir Ívar sem hefur unnið í handritinu nær sleitulaust í um þrjú ár.

Tony-verðlaunahafar í sýningunni

Þetta er því langt ferli en hvernig er tilfinningin að fá bráðum loks að flytja þetta fullbúið á sviði?

„Það er svolítið skrýtið. Fyrst var þetta bara til í höfðinu á mér, á þessum skringilega stað. Svo sér maður þetta verða til og fær til sín þetta gríðarlega hæfileikaríka fólk.“

Fríður flokkur listamanna tekur þátt í uppfærslunni sem er sett upp á svokölluðum Off-Broadway vettvangi. Cady Huffman tók að sér hlutverk en hún er Tony-verðlaunahafi, til sömu verðlauan hefur ljósameistar sýningarinnar Jeff Croiter unnið og danshöfundur sýningarinnar er enginn annar en Lee Proud sem samdi sporin í Billy Elliot og Hairspray. Leikstjórinn er Bergur Þór Ingólfsson. Það er ótrúlegt að fylgjast með honum vinna. Hann er leikhússnillingur.“ Ívar segir Berg hafa ótrúlega tilfinningu hvað virkar og hvað ekki í leikhúsi.

Verkið er stórt í sniðum en Ívar segir enga leið að spá fyrir um hvernig áhorfendur komi til með að bregðast við. „Þetta er allt frekar súrrealískt og ekki víst að fólk kveiki strax á þessari framúrstefnu,“ segir hann og hlær. „Það er í raun og veru sigur að gera þetta. Hvernig svo sem fer, hvort sem þetta slær í gegn eða ekki. Það kemur bara í ljós.“

„Öll umgjörðin í verkinu er súrrealísk og framandi. Kjarninn er saga sem við könnumst öll við. Fjallar um þetta mannlega. Fjallar um hvað við viljum í lífinu.“

Hér fyrir neðan má hlusta á tónlistina úr verkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×