Skoðun

Íslenskur sjávarútvegur – Staða og horfur

Helga Sigurrós Valgeirsdóttir skrifar
Það er margt spennandi framundan í sjávarútvegi á Íslandi. Við í Arion banka fengum Íslenska sjávarklasann í lið með okkur til að greina stöðu og horfur í nokkrum af þeim viðfangsefnum sem geta haft veruleg áhrif á þessa mikilvægu útflutningsgrein þjóðarinnar. Niðurstöðurnar er að finna í ritinu Íslenskur sjávarútvegur – Staða og horfur, sem bankinn gaf út í tengslum við Sjávarútvegsráðstefnunna í síðustu viku. Meðal þeirra viðfangsefna sem tekin eru fyrir í ritinu er úttekt á möguleikum fólgnum í frekari vinnslu fersks fisks til útflutnings. Á síðustu 14 árum hefur útflutningsverðmæti ferskra afurða aukist um 26 milljarða króna. Með áframhaldandi þróun í þessa átt og frekari vinnslu fersks fisks er ljóst að verðmætin geta aukist enn frekar.

Sjávarútvegur vegur þungt í landsframleiðslu okkar Íslendinga. Í ritinu skoðum við hvernig gengi krónunnar hefur áhrif á framlag greinarinnar til landsframleiðslunnar. Hefði gengið til dæmis styrkst um 10% á ári frá árinu 2008 hefði uppsafnaður virðisauki í sjávarútvegi verið 246 milljörðum lakari en hann í raun var (á föstu verðlagi). Við lítum einnig til mögulegar þróunar í fiskeldi á Íslandi. Gangi samspil mikilvægra umhverfisþátta, grunnrannsókna og uppbyggingar innan greinarinnar upp þá getur fiskeldi orðið mikilvægt íslenskum efnahag. Auk þess að stuðla að fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu á einhæfum atvinnusvæðum landsins þá gæti greinin skilað umtalsverðum útflutningstekjum, 40-65 milljörðum króna, takist að byggja eldi upp í 50 þúsund tonna ársframleiðslu og halda þeim verðum sem eldisafurðir okkar seldust á árið 2014.

Það er sérstaklega athyglisvert þegar litið er til þeirra ólíku viðfangsefna sem í ritinu er að finna hversu oft málefni flutningskerfisins koma upp. Þróun flutningskerfa hér á landi hefur skipt okkur máli og kemur til með að gera það áfram á eylandinu Íslandi. Til dæmis er nú um helmingur botnfisksafla unninn á suðvesturhorni landsins. Fyrir rúmum 20 árum voru þetta 36%. Vinnsla fersks fisks flyst stöðugt nær útflutningsleiðum okkar, Sundahöfn og Keflavíkurflugvelli. Það skiptir máli að lágmarka tímann frá vinnslu fersks fisks þar til hann stendur neytendum handan hafsins til boða. Ef við ætlum að auka útflutning á ferskum fiski enn frekar er mikilvægt að flutningsgeta með flugi vaxi samhliða því, sérstaklega þegar horft er til Bandaríkjamarkaðar. Þetta er einnig mikilvægt þegar horft er til þess að ná frekari árangri á Asíumörkuðum, þá skiptir miklu máli að þróa flutningakerfi okkar í takt við það.

Tækifærin eru mýmörg, við stöndum framarlega í þróun veiði- og vinnslutækni og nýsköpunar í sjávarútvegi. Það er spennandi að starfa með og innan íslensks sjávarútvegs.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×