Innlent

Íslenskur prófessor vekur athygli fyrir gel sem gæti grætt sár

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér má sjá Þorra að stöfum ásamt Dr. Kotova.
Hér má sjá Þorra að stöfum ásamt Dr. Kotova. Mynd/Irish times/AdamCrawley
Efnafræðingar við Trinity háskóla í Dublin hafa skapað sérstakt gel sem hægt er að nota á marga vegu, allt frá því að hindra að ör myndist á húð manns til þess að búa til bílabón sem lagfærir sjálfkrafa rispur. Íslendingurinn og prófessorinn Þorri Gunnlaugsson er prímus mótor í rannsókninni. Hann hefur starfað við háskólann í yfir áratug.

Þorri segir rannsóknir á geli hafa orðið mikilvægar á síðustu árum. Gelið er frekar ódýrt og auðvelt í framleiðslu.

Vísindamenn fundu upp gelið fyrir algjöra slysni eins og vill oft verða í lífinu.

„Við vorum að vinna að því að nota málmjónir til þess að búa til samsetningu af stærri sameindum,“ sagði Þorri í samtali við IT, Irish times.

Þorri hefur unnið með Dr. Oxana Kotova, efnafræðingi, en þau lýstu uppgötvun sinni í blaðinu Journal of the American Society.

Gelið hefði getað endað í tunnunni en vísindamennirnir bættu í það tveimur málmtegundum - europium og terbium. Þau efni gera það að verkum að sameindirnar geta raðað sér í form sem annars væri ómögulegt að skapa. Þær mynda trefjótt gel sem hefur marga nothæfa eiginleika. Til dæmis lagfærir gelið sig sjálft ef það er skorið í það.

„Þetta er eins og hlaup,“ útskýrir Þorri. „Við skárum það í sundur með skurðhníf en það raðaði sér saman og græddi sjálft sig fyrir framan augun á okkur."

Gelið er á fyrstu stigum rannsókna en miklar vonir eru bundnar við það. Meðal annars telur Þorri að gelið gæti verið nýtt til þess að vernda húð eftir alvarlegan bruna. „Gelið er nógu sterkt til þess að loka sári og myndi brotna niður og stuðla að því að sárið myndi gróa náttúrulega.“

Hér má lesa meira um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×