Fótbolti

Íslenskur landsliðsmaður gæti verið á leiðinni til Grasshopper í Sviss

óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson (númer 16) með öðrum íslenskum varamönnum fyrir leikinn á móti Englandi.
Rúnar Már Sigurjónsson (númer 16) með öðrum íslenskum varamönnum fyrir leikinn á móti Englandi. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson gæti verið kominn í nýtt lið áður en hann klárar EM í Frakklandi því svissneskt stórlið hefur mikinn áhuga á kappanum.

Sundsvall Tidningin segir frá því í kvöld að mörg félög hafi áhuga á íslenska miðjumanninum sem er í EM-hóp Íslands í Frakklandi en hefur þó ekki enn komið við sögu í leikjum Íslands.

„Ég get staðfest það að það er áhugi á Rúnari og við erum í viðræðum. Ég get samt ekki sagt hvaða félög um ræðir," sagði Urban Hagblom, íþróttastjóri hjá GIF Sundsvall.

Rúnar Már Sigurjónsson er nýorðinn 26 ára gamall en hann er uppalinn hjá Tindastól á Sauðárkróki en spilaði með Val áður en hann fór út í atvinnumennsku.

Næsti leikur Sundsvall liðsins er 10. júlí næstkomandi en blaðamaður Sundsvall Tidningin veltir því fyrir sér hvort Rúnar Már hafi spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

„Það er erfitt að segja hversu hratt svona viðræður ganga. Í samningaviðræðum veistu aldrei hvað gerist," sagði Hagblom.

Samningur Rúnars Más Sigurjónssonar og GIF Sundsvall rennur út eftir þetta tímabil.

Rúnar Már er markahæsti leikmaður GIF Sundsvall á tímabilinu með 6 mörk í 12 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni í sumar.

Grasshopper Club Zürich er eitt allra þekktasta lið Sviss en það hefur 27 sinnum orðið svissneskur meistari. Liðið hefur þó ekki orðið meistari í þrettán ár og endaði í 4. sæti í deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×