Innlent

Íslenskur hestur í kviksyndi

Stefán Árni Pálsson skrifar
"Þeir eru í eðli sínu svo rólegir,” sagði Thøgerse í samtali við TV2.
"Þeir eru í eðli sínu svo rólegir,” sagði Thøgerse í samtali við TV2. mynd/vefsíða Hestafrétta
Íslenski hesturinn Logi lenti í kviksyndi á Rømø í Danmörku ásamt knapa sínum Therese Thøgerse um helgina en þetta kemur fram á vef Hestafrétta.

Erfiðlega gekk að koma hestinum upp úr kviksandinum en eigandinn telur það lán í óláni að hesturinn var íslenskur. „Þeir eru í eðli sínu svo rólegir,” sagði Therese Thøgerse í samtali við TV2.

Hópur fólks var í reiðtúr á ströndinni þegar hesturinn Logi stóð skyndilega fastur í sandinum.

Thøgerse komst af baki meðan hesturinn sökk í sandinn. Í tuttugu mínútur var hesturinn fastur í kviksyndinu þar til meðreiðarsveinar Thøgerse aðstoðuðu hana við að draga hestinn upp úr sandinum með því að festa ístaðsólar í Loga.

„Til allra hamingju voru þetta íslenskir hestar sem við riðum á. Þeir eru með rólegt geðslag og þess vegna trylltist Logi ekki. Við höfðum riðið langt og ég held líka að hann hafi verið þreyttu,“ sagði Thøgerse og segir að eftir að hann komst af baki fóru allir viðstaddir að hugsa um hvernig væri best að koma Loga upp úr hylnum.

„Eftir hálftíma tókst tveimur karlmönnum úr hópnum að draga Loga upp, með ístaðsólum sem þeir bundu saman. Á tímabili var augnaráð Loga orðið fjarrænt og ég var hrædd um það að hann væri að deyja,” sagði Therese Thøgersen í viðtali við fjölmiðla í Danmörku.

Eyjan Rømø er við vesturströnd Jótlands, ekki langt frá landamærum Þýskalands. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna, bæði Dana og Þjóðverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×