Handbolti

Íslensku þjálfararnir fylgja báðir toppliðinu eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason þjálfar lið Kiel.
Alfreð Gíslason þjálfar lið Kiel. vísir/getty
Kiel og Füchse Berlin unnu bæði leiki sína í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og fylgja eftir toppliði Flensburg-Handewitt sem vann einnig sinn leik.

Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, vann sex marka útisigur á Bergischer HC, 31-25, eftir að hafa verið 18-12 yfir í hálfleik.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði 2 mörk úr 4 skotum fyrir lið Bergischer en Björgvin Páll Gústavsson fékk ekkert að spreyta sig í kvöld því Christopher Rudeck stóð í markinu allan tímann.

Steffen Weinhold var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk en þeir Patrick Wiencek og Niclas Ekberg skoruðu báðir fimm mörk. Þetta var sjötti deildarsigurinn í röð hjá Kiel eftir óvænt tap á móti Wetzlar í upphafi tímabilsins.

Füchse Berlin, lið Erlings Richardssonar, vann sex marka útisigur á HSC 2000 Coburg, 29-23, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 13-12.

Bjarki Már Elísson nýtti bæði skotin sín í leiknum en Steffen Fäth var markahæstu hjá Refunum með sjö mörk.

Kiel og Füchse Berlin hafa bæði unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum en Flensburg-Handewitt er með fullt hús eftir sjö leiki.

Füchse Berlin vann fyrstu sex leiki sína en hafi tapað fyrsta leiknum sínum á móti Kiel í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×