Handbolti

Íslensku línumennirnir í stuði í Árósum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir AGF síðan 2005.
Róbert skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir AGF síðan 2005. vísir/epa
Róbert Gunnarsson skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir AGF í 11 ár.

Þau dugðu þó skammt því liðið steinlá, 23-40, fyrir Team Tvis Holstebro í 1. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Annar íslenskur línumaður, Vignir Svavarsson, átti frábæran leik fyrir Holstebro og skoraði sjö mörk. Egill Magnússon skoraði eitt mark.

Eins og tölurnar gefa til kynna var fátt um varnir hjá AGF. Liðið hélt þó í við Holstebro framan af leik og þegar 20 mínútur voru liðnar munaði aðeins einu marki á liðunum, 11-12.

Gestirnir unnu svo síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks 7-2 og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 13-19.

Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum og þegar lokaflautið gall munaði 17 mörkum, 23-40, á þeim.

Ómar Ingi Magnússon og Sigvaldi Guðjónsson skoruðu báðir þrjú mörk fyrir AGF. Íslendingarnir skoruðu því 14 af 23 mörkum liðsins í leiknum.

Aron Kristjánsson stýrði Aalborg í fyrsta sinn í deildarleik í dag þegar liðið mætti SönderjyskE á útivelli.

Aalborg hafði mikla yfirburði í leiknum og vann 13 marka sigur, 15-28.

Arnór Atlason og Stefán Rafn Sigurmannsson spiluðu sinn fyrsta leik fyrir Aalborg í dag. Arnór skoraði tvö mörk en Stefán Rafn komst ekki á blað.

Viggó Kristjánsson þreytti frumraun sína fyrir Randers þegar liðið tapaði með minnsta mun, 21-22, fyrir Bjerringro-Silkeborg á heimavelli.

Viggó skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×