Fótbolti

Íslensku framherjarnir aðeins spilað 654 mínútur árinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vonir standa til að Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, verði klár í slaginn fyrir næsta verkefni liðsins gegn Kasakstan ytra í undankeppni EM 2016.

Kolbeinn hefur verið meiddur undanfarnar vikur og ekki leikið með liði sínu Ajax í Hollandi. Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði við íþróttadeild í dag að vonir standa til að Kolbeinn verði með á móti Kasakstan.

Þetta kom fram í frétt Guðjóns Guðmundssonar í kvöldfréttum Stöðvar 2, en Kolbeinn er í kapphlaupi við tímann. Verði hann ekki klár 28. mars er ljóst að úr vöndu er að ráða.

Kolbeinn hefur aðeins spilað 44 mínútur með Ajax á árinu og þeir Alfreð Finnbogason og Jón Daði Böðvarsson litlu meira. Þá hefur Viðar Örn Kjartansson ekkert spilað á árinu 2015.

Sá framherja Íslands sem á flestar mínútur á þessu ári er Eiður Smári Guðjohnsen, en hann hefur spilað 351 mínútu með Bolton síðan hann gekk aftur í raðir síns gamla félags.

Það stefnir í framherjakrísu hjá íslenska liðinu í Kasakstan ef mínútum fjölgar ekki hjá framherjunum hjá félagsliðum þeirra í mánuðinum. Alla fréttina má sjá hér að ofan.

Mínútur íslensku framherjanna á árinu 2015:

Eiður Smári Guðjohnsen, Bolton - 351 mínúta

Jón Daði Böðvarsson, *Ísland - 117 mínútur

Alfreð Finnbogason, Real Sociedad - 102 mínútur

Kolbeinn Sigþórsson, Ajax - 44 mínútur

Viðar Örn Kjartansson, Jiangsu Sainty - 0 mínútur

*Jón Daði spilaði 117 mínútur í tveimur vináttuleikjum gegn Kanada en hefur bara spilað æfingaleiki með liði sínu Viking í Stavanger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×