Viðskipti innlent

Íslenskir stjórnendur launahærri en norrænir kollegar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Krónur.
Krónur.
Munur á dagvinnulaunum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópa en þeim tekjulægri.

Á þetta er bent í umfjöllun á vef Starfsgreinasambandsins og vísað í nýjar tölur Alþýðusambandsins. Í samanburðinum er horft til tekna fólks eftir skatta og búið að leiðrétta fyrir verðlagi.

Þannig kemur fram að dagvinnulaun stjórnenda hér á landi séu um fimm prósentum hærri en að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. „Hluta af þessum mun má skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en annars staðar á Norðurlöndum og því verður hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér,“ segir í skýrslu ASÍ.

Þá kemur fram í samantekt sem fjármálaráðuneytið birti í gær, föstudag, að tekju- og eignastaða landsmanna hafi batnað verulega frá hruni. Í hruninu hafi eignir þeirra fimm prósenta sem mest áttu rýrnað um 22 prósent, en hinna 95 prósentanna um 26 prósent. 

„Skuldastaða þorra landsmanna hefur batnað og eru skuldir nú 43 prósentum minni en þær voru í árslok 2008,“ segir þar. Hlutdeild tekjuhæstu einstaklinganna í heildartekjum landsmanna er sögð svipuð á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. 

Mestur munur á dagvinnulaunum sé hins vegar gagnvart verkafólki og fólki sem starfar við þjónustu, sölu og afgreiðslu. Hér eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30 prósentum lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum, fimmtungi lægri hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×