Viðskipti innlent

Íslenskir bjórar slá í gegn á kanadísku Oktoberfest

Bjarki Ármannsson skrifar
Íslensku bjórarnir Bríó og Garún voru meðal þeirra bjóra sem boðið var upp á bjórhátíðinni Harvest Haus í Vancouver í Kanada á dögunum. Um er að ræða Oktoberfest að hætti Þjóðverja, þar sem mörg af helstu brugghúsum heims taka þátt, þeirra á meðal Leffe, Hoegaarden, Samuel Adams og fleiri.

Spjallþátturinn Talk show fjallaði um hátíðina á dögunum og voru bæði Bríó og Garún meðal þeirra bjóra sem þáttastjórnendur, klæddir í hefðbundna Oktoberfest-búninga, höfðu til sýnis og fjölluðu um.

Sjá má innslagið í spilaranum hér að ofan.

Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni, sem flytur bjórana út, hefur Bríó verið fáanlegur í Kanada frá árinu 2013 og Garún frá því í fyrra. Salan er sögð hafa gengið vonum framar í Vesturheimi.

„Aukning í útflutningi þessara bjóra til Kanada er yfir 120 prósent það sem af er ári,“ segir Óli Rúnar Jónsson, útflutningsstjóri Ölgerðarinnar, í tilkynningu.  „Aukningin á Garúnu hefur verið aðeins meiri en við höfum ráðið við með Borg Brugghúsi, sem hefur svo orsakað vöruvantanir hjá okkur á tímum.  Þetta er bara jákvætt og lofar góðu upp á framhaldið.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×