Handbolti

Íslenski markvörðurinn í stuttbuxunum vekur athygli á HM í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Ari Guðjónsson.
Grétar Ari Guðjónsson. Mynd/ihf.info
Grétar Ari Guðjónsson, markvörður íslenska 19 ára landsliðsins, hefur staðið sig vel í fyrstu tveimur leikjum liðsins á HM í Ekaterinburg í Rússlandi.

Ísland hefur unnið tvo fyrstu leiki sína (á móti Rússlandi og Spáni) og Grétar var tekinn í viðtal á heimasíðu mótsins.

Grétar spilar í stuttbuxum í markinu sem er ekki algengt enda að glíma við það berleggjaður að verja þrumuskot frá mótherjum íslenska liðsins. Hann var að sjálfsögðu spurður út í stuttbuxurnar í viðtalinu.

„Þetta er bara eitthvað sem ég byrjaði á EM í Póllandi í fyrra. Það var mjög heitt í höllinni þannig að ég spilaði frekar í stuttbuxum en síðbuxum. Allt í einu fór ég að verja meira og svo hefur oftast verið þegar ég er að spila í stuttbuxum með landsliðinu," sagði Grétar við heimasíðu Alþjóðahandboltasambandsins.

„Ég hef ekki verið að standa mig nógu vel í síðbuxunum þannig að nú verð ég bara að spila í stuttbuxunum," sagði Grétar í léttum tón. Grétar Ari spilar með Haukum hér heima.

„Við í liðinu höfum allir beðið eftir þessu móti. Ég var spenntur fyrir mótið en alls ekki stressaður. Ég hlakkaði bara til að koma til Rússlands og mætti hingað fullur af orku," sagði Grétar.

Íslenska landsliðið vann opna Evrópumótið í Gautaborg fyrr í sumar og hefur byrjað vel á HM. Íslenska liðið er sterkt og líklegt til að ná góðum árangri á HM.

„Þrátt fyrir að ná góðum úrslitum í byrjun þá getum við enn bætt okkur mikið," sagði Grétar.

„Þetta verður skemmtilegt hvernig sem þetta fer hjá okkur. Það er að sjálfsögðu miklu betra að vinna leikina en við erum allir góðir vinir og þar liggur styrkur okkar sem liðs," sagði Grétar Ari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×