Lífið

Íslenska stuttmyndin Jón Jónsson vekur athygli erlendis

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
„Við gerðum þessa mynd fyrir mjög lítið fjármagn og draumurinn hefur alltaf verið að gefa þeim sem lögðu hjarta og sál í þetta verkefni eitthvað til baka,“ segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir, framleiðandi stuttmyndarinnar Jón Jónsson.

Myndin var valin til þátttöku á vefkvikmyndahátíðinni Viewster. Lára segir að 568 myndir keppi á hátíðinni en þemað að þessu sinni var flókin ástarsambönd.

„Myndin okkar, Jón Jónsson, fjallar um ekkil sem býr einn og hefur aldrei gifst á ný. Hann er vanafastur og heldur í sína föstu rútínu. Hann átti í talsvert flóknu sambandi við látnu eiginkonuna og skyndilega fara undarlegir atburðir að gerast,“ segir Lára, en Jón Jónsson er leikinn af engum öðrum en Erlingi Gíslasyni.

Sigurmyndin hlýtur 70.000 þúsund Bandaríkjadali í verðlaun en Jón Jónsson er um þessar mundir í 34. sæti af öllum 568 myndunum.

Lára Guðrún, framleiðandi.
„Við höfum verið að mjakast upp listann án þess að hafa hvatt nokkurn til að kjósa. Nú ætlum við hins vegar að biðla til fólks um að kjósa myndina svo við komumst ofar en það virðist vera eins og hjörtu Íslendinga slái saman á netinu, það vilja yfirleitt allir styðja við bakið á ungum og upprennandi Íslendingum,“ segir Lára. 

Kosningu lýkur 24. júní en dómnefnd mun síðan fara yfir efstu tíu myndirnar. „Jón Jónsson er þrusugóð mynd sem fólk á eftir að hafa gaman af. Erlingur er líka farinn að draga sig í hlé í leiklistinni svo þetta er kannski í eitt af síðustu skiptunum sem hægt er að sjá hann njóta sín á skjánum.“ 

Lára hvetur fólk til þess að fara inn á viewster.com og kjósa myndina en hægt er að horfa á hana án endurgjalds til 24. júní. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×