Fótbolti

Íslenska markametið er fallið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.
Fyrsta mark Hólmars Arnar Eyjólfssonar fyrir Rosenborg um síðustu helgi var ekki aðeins tímamótamark fyrir hann sjálfan heldur bætti hann með því íslenska markametið í erlendri deild. Íslensku mörkin eru nú orðin 62 talsins í Tippeligaen 2014 en Hólmar Örn varð fimmtándi íslenski knattspyrnumaðurinn sem skoraði í norsku deildinni á þessu tímabili.

Gamla metið var varla orðið kalt því íslenskir leikmenn skoruðu 61 mark í hollensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Þetta met hefur því fallið tvisvar sinnum á sjö mánuðum en hafði áður lifað í tæp sextán ár.

Afrek íslenskra leikmanna í Noregi eru afar áberandi á topplistanum eins og sjá má að 8 af 10 markahæstu tímabilum íslenskra leikmanna í erlendri deild voru tímabil í norsku úrvalsdeildinni. Íslendingar hafa verið í algjörum sérflokki af erlendum leikmönnum í norsku deildinni í ár en Ísland er með tvöfalt fleiri mörk en Danmörk sem er í 2. sæti í markakeppni erlendra leikmanna.

Alfreð Finnbogason fór fyrir íslenska metárinu í fyrravetur en hann skoraði þá 29 mörk fyrir Heerenveen. Það er það mesta sem íslenskur leikmaður hefur skorað á tímabili en Viðar Örn Kjartansson fær fimm leiki til viðbótar til að verða sá fyrsti í 30 mörkin.

Íslenska markametið féll tvisvar á árinu 2014 en eftir nokkur íslensk mörk til viðbótar í norsku deildinni er ekki ólíklegt að það met haldist óhaggað í mörg ár. Uppgangur íslenskra fótboltamanna er hins vegar það kraftmikill að hver veit nema metið verði aftur í hættu á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×