Fótbolti

Íslenska liðið gat aldrei tapað í augum íslensku stuðningsmannanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Englendingurinn og Íslandsvinurinn Liam Molloy er fulltrúi Íslands í viðtölum Guardian við stuðningsmenn frá öllum þjóðunum 24 sem tóku þátt í EM í Frakklandi.

Guardian fékk einn frá hverju landi til þess að gera upp mótið og hvaða þýðingu það hefði fyrir viðkomandi þjóð.

Liam Molloy er frá Manchester í Englandi en hefur búið á Íslandi undanfarin ellefu ár.

„Við hér á Íslandi erum öll stolt yfir því hvernig íslenska liðið og þeirra frábæri liðsandi skein skært á stóra sviðinu," segir Liam Molloy.

„Þegar Ísland skoraði sigurmarkið sitt á móti Austurríki í uppbótartíma þá fagnað öll Reykjavík eins og ég hef aldrei séð áður. Ég áttaði mig síðan á því að næsti mótherji yrði England og við vitum öll hvað gerðist næst," sagði Liam Molloy.

Íslenska liðið vann 2-1 sigur á Englandi og skildi enskan fótbolta eftir í miklu uppnámi, með engan landsliðsþjálfara og framtíðina í mikilli óvissu.

Íslenska liðið hélt hinsvegar áfram að heilla heiminn með víkingaklappinu og mörkum í hverjum leik. Ævintýrið endaði samt í átta liða úrslitunum þar sem Ísland lenti 4-0 undir í fyrri hálfleik á móti Frökkum og tapaði á endanum 5-2.

„Ég hef líka aldrei séð fólk fagna tapleik með eins miklu stolti og Íslendingarnir gerðu eftir leikinn á móti Frökkum. Þau sögðu: Við unnum allavega seinni hálfleikinn. Íslenska liðið gat aldrei tapað í augum íslensku stuðningsmannanna á þessu móti. Bara að vera þarna var sigur í þeirra augum," sagði Molloy.

Það er hægt að sjá viðtalið við Liam Molloy sem og öll hin viðtölin með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Stjörnur ESPN á EM 2016 eru Griezmann, Ísland og Wales

Bandaríski íþróttamiðilinn ESPN fjallaði ítarlega um Evrópumótið í Frakklandi á meðan því stóð og var með einn bloggara frá hverri þátttökuþjóð sem sögðu frá keppninni frá sínu sjónarhorni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×