Fastir pennar

Íslenska hagsveiflan

Lars Christensen skrifar
Það er erfitt að finna nokkurt hagkerfi í heiminum sem er óstöðugra en það íslenska – jafnvel þótt það sé borið saman við önnur mjög lítil hagkerfi. Allir á Íslandi þekkja söguna – við fórum úr gríðarlegri (ósjálfbærri) uppsveiflu yfir í meiriháttar hrun 2008 og nú er efnahagslífið aftur á uppleið.

Verg landsframleiðsla óx að raunvirði um 10,3% á síðasta ársfjórðungi 2016 miðað við sama tímabil árið áður, og íslenska hagkerfið er það sem vex hvað hraðast á Vesturlöndum. En það er mjög auðvelt að verða áhyggjufullur vegna sögu hagsveiflunnar á Íslandi.

Það er líka hætt við að menn hafi áhyggjur af að enn á ný endi þetta í meiriháttar hruni. Ég tel hins vegar að við ættum ekki að álykta í fljótfærni að þetta endi jafnilla og 2008. Ég held ekki að það sé endilega tilfellið.

Fáar atvinnugreinar

Íslenska hagkerfið er í eðli sínu óstöðugt og að miklu leyti er ógerningur að gera neitt við því. Þar sem íslenska hagkerfið reiðir sig á aðeins fáar atvinnugreinar – orku/ál, fiskveiðar og nú undanfarið ferðaþjónustu – sjáum við miklar sveiflur bæði í framboði og eftirspurn og þar af leiðandi í vergri landsframleiðslu. Íslendingar eru að miklu leyti vanir þessu en fáir myndu segja að þetta væri gott og þess vegna ættu stjórnvöld að hugleiða hvernig hægt væri að draga úr fjármálasveiflunum í íslenska hagkerfinu.

Þannig er það ekki aðeins atvinnuuppbygging íslenska hagkerfisins sem veldur því að efnahagsstarfsemin er óstöðug heldur einnig bæði peningamálastefnan, stefnan í ríkisfjármálum og heildarregluumhverfið í íslenska hagkerfinu.

Ég hef áður bent á það í Fréttablaðinu að íslenska húsnæðislánakerfið auki óstöðugleikann með því að tengja afborganir húsnæðislána við verðbólgu, sem aftur er nátengd óstöðugleika gengisins. Leið til að draga úr þessu vandamáli væri að tengja afborganir húsnæðislána við nafnvirði launahækkana í stað verðbólgunnar.

Ýtir undir sveiflurnar

Að sama skapi tel ég að það væri heillavænlegt ef Seðlabankinn tæki, í stað verðbólgumarkmiðs, upp markmið um nafnvirði launahækkana (til dæmis 5%). Vandamálið núna er að lítil verðbólga samkvæmt neysluverðsvísitölu er að miklu leyti vegna gengisstyrkingar krónunnar, sem er aftur drifin áfram af viðskiptakjörum (útflutningsverð á móti innflutningsverði). Þannig að ef til dæmis álverð hækkar (og hagkerfið eflist) hefur krónan tilhneigingu til að styrkjast og þrýsta verðbólgu niður, sem aftur veldur því að Seðlabankinn losar um peningamálastefnu sína. Það er því tilhneiging til að peningamálastefnan styðji sveiflurnar í stað þess að vinna gegn þeim. Nýleg þróun lýsir þessu afar vel – hagkerfið er í uppsveiflu og Seðlabankinn lækkaði nýlega stýrivexti. Ef eitthvað, þá ætti Seðlabankinn að herða peningamálastefnuna.

Að lokum: Hinn mikli óstöðugleiki í íslenska hagkerfinu er að mörgu leyti „náttúrulegur“. En stjórnvöld gætu og ættu, að mínu viti, að grípa til aðgerða til að breyta hinum efnahagslega og pólitíska ramma svo hægt verði að draga úr „mögnurunum“ í kerfinu, sem eiga það til að auka óstöðugleikann í hagkerfinu.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






×