Fótbolti

Íslenska fótboltalandsliðið með mestu yfirburðina á Norðurlöndum í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason og Theódór Elmar Bjarnason eftir sigurleikinn á móti Englandi.
Birkir Bjarnason og Theódór Elmar Bjarnason eftir sigurleikinn á móti Englandi. Vísir/Getty
Ísland er ekki aðeins með besta landslið Norðurlanda í karlaflokki heldur það langbesta ef marka má styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Íslenska liðið hækkar sig um tólf sæti og er í 22. sæti á nýja FIFA-listanum sem var gefinn út í morgun. Ísland er um leið átján sætum ofar en næsta Norðurlandaþjóð sem er Svíþjóð.

Það þarf að fara alla leið aftur til september 2009 til að finna aðra eins yfirburði meðal Norðurlandaþjóðanna.  

Fyrir sjö árum síðan voru Danir í sextánda sæti FIFA-listans en næstir komu Svíar í 41. sæti og Norðmenn í 43. sæti. Danir voru þar með 25 sæta forskot. Íslenska liðið var þá í 96. sæti listans.

81 listi hefur verið gefinn út hjá FIFA síðan í septembermánuði 2009 en nú fyrst hefur þjóð verið með jafnmikið forskot og Danirnir höfðu fyrir sjö árum síðan.

Íslenska liðið var líka með besta lið Norðurlanda á júnílistanum en þá var forskotið aðeins eitt sæti. Ísland var þá í 34. sæti en Svíar í 35. sæti og Danir í því 38.

Á nýja listanum fóru þessar þjóðir aftur á móti í sitthvora áttina. Ísland hækkaði sig um tólf sæti en á meðan fóru Svíar niður um fimm sæti og Danir niður um sex sæti.

Norðmenn og Finnar hækkuðu sig reyndar eins og Ísland en aðeins um tvö sæti. Norðmenn eru í 49. sæti og Finnar eru í 65. sæti.

Færeyingar hröpuðu hinsvegar niður um heil 47 sæti á listanum og sitja í 136. sæti. Fram að því höfðu allar Norðurlandaþjóðirnar verið inn á topp hundrað á tólf listum í röð.

Mesta forskot meðal Norðurlandaþjóða frá 2012:

+18 sæti

Ísland í júlí 2016 (Ísland í 22. sæti - Svíþjóð í 40. sæti)

+10 sæti

Danmörk í apríl 2015 (Danmörk í 28. sæti - Ísland í 38. sæti)

+9 sæti

Danmörk í júní 2014 (Danmörk í 23. sæti - Svíþjóð í 32. sæti)

Danmörk í maí 2015 (Danmörk í 29. sæti - Ísland í 38. sæti)

Danmörk í febrúar 2015 (Danmörk í 28. sæti - Ísland í 37. sæti)

+8 sæti

Danmörk í febrúar 2012 (Danmörk í 10. sæti - Svíþjóð í 18. sæti)

Danmörk í apríl 2012 (Danmörk í 9. sæti - Svíþjóð í 17. sæti)

Danmörk í júní 2012 (Danmörk í 9. sæti - Svíþjóð í 17. sæti)

Danmörk í september 2012 (Danmörk í 10. sæti - Svíþjóð í 18. sæti)

Danmörk í júní 2015 (Danmörk í 29. sæti - Ísland í 37. sæti)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×