Skoðun

Íslenska er undirstaðan

Þórir Guðmundsson skrifar

Á þessu ári er líklegt að Ísland veiti um 200 flóttamönnum skjól frá stríði, ofsóknum og óbærilegum þjáningum. Við getum það vel, erum ein af auðugustu þjóðum í heimi og vantar vinnuafl.

Aðlögun innflytjenda að nýju samfélagi er flókið viðfangsefni sem þjóðir heims hafa glímt við í mismunandi mæli um ómunatíð. Eitt er þó ekkert flókið. Til þess að innflytjanda farnist vel í nýjum heimkynnum þarf hann að skilja og tala tungumál heimamanna.

Í Noregi eru sveitarstjórnir skyldugar að lögum til að bjóða flóttafólki og öðrum innflytjendum ókeypis tungumálanám. Að auki bjóða félagasamtök eins og Rauði krossinn upp á tungumálaþjálfun, sem styður við formlegt nám. Norska ríkið lítur sömu augum á flóttamenn, hvernig sem þeir koma til landsins. Allir eiga rétt á að minnsta kosti 600 klukkustunda norsku­kennslu, ókeypis, og inni í þeirri kennslu er fræðsla um norskt samfélag. Þeir sem eru undir 55 ára aldri eru skyldugir til að mæta í norskutímana. Ólæsir fá enn meiri stuðning.

Íslenska kerfið mismunar flóttamönnum eftir því hvernig þeir koma til landsins. Hvað tungumálið varðar veitir það svokölluðum kvótaflóttamönnum ágæta íslenskukennslu, 720 kennslustundir að lágmarki, samkvæmt reglugerð. Þeir sem koma til landsins í gegnum hæliskerfið fá miklu minni stuðning, 150.000 krónur samkvæmt leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytis, sem nægir til að greiða fyrir um 180 kennslustundir í málaskóla.

Stuðningur til íslenskunáms er fjárfesting í árangursríkri aðlögun til hagsbóta fyrir þjóðfélagið sem heild. Innflytjandi sem talar íslensku hefur tækifæri til að komast áfram í lífi og starfi. Hann er líklegri til að vera ánægður borgari en sá sem sökum tungumálaörðugleika þarf að sætta sig við láglaunastarf sem ekki krefst samskipta við heimamenn.

Þjóð sem leggur jafn mikla áherslu á þjóðtunguna og Íslendingar gera ætti öðrum fremur að skilja mikilvægi þess að innflytjendur læri tungumálið. Af öllu því sem hægt væri að gera til að stuðla að árangursríkri aðlögun, þá er íslenskukennsla það augljósasta. Stuðningur á því sviði er fjárfesting sem borgar sig.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. júlí




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×