Erlent

Íslensk kona í ótrúlegum árekstri í Bandaríkjunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Trukkurinn sést hér dreginn út úr byggingunni sem hann klessti á.
Trukkurinn sést hér dreginn út úr byggingunni sem hann klessti á. Mynd/Skjáskot af síðu Herald-Dispatch
„Þetta er engin stórglæpaborg. En maður getur greinilega lent í ýmsu hvar sem er,“  segir Kristín Örnólfsdóttir, íslensk kona búsett í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum.

Kristín lenti í því ótrúlega atviki fyrr í dag að nýr bíll hennar laskaðist alvarlega þegar maður á flótta frá lögreglu missti stjórn á trukk sínum og ók honum beint inn á bílaverkstæði.

„Ég fór bara með bílinn í sakleysi mínu á dekkjaverkstæði, þurfti að fá tvö ný dekk,“ segir Kristín. Hún heimsótti verslunarmiðstöð hinum megin við götuna á meðan viðgerðinni stóð.

„Svo hringja þeir og segja að bíllinn sé tilbúinn og ég fór svona sirka 20-30 mínútum seinna yfir að ná í bílinn. Þá sé ég bara tvo slökkvibíla, tvo sjúkrabíla, fjóra löggubíla og allt brjálað þarna.“

Kristín komst að því eftir á að hringt var á lögreglu vegna manns sem hafði hegðað sér einkennilega í verslunarmiðstöðinni og fyrir utan hana.

„Þegar hann sér lögguna koma þá bara stekkur hann upp í rauðan trukk og brunar af stað á brjáluðum hraða,“ segir Kristín. „Hann nær greinilega ekki beygjunni þannig að hann fer inn á bílastæðið þar sem bíllinn minn var, keyrir á hann þannig hann skutlast í burtu og lendir svo bara inni á bílaverkstæðinu. Bara hvarf í gegnum húsið.“

Fer hann í gegnum glugga þá?

„Nei nei, bara í gegnum vegg. Það er ekki allt steypt hérna í Ameríkunni.“

Hinum megin við vegginn voru söluskrifstofur og þrír starfsmenn að vinnu. Þykir ótrúlegt að þeir hafi sloppið ómeiddir. Enginn slasaðist nema bílstjórinn sem var fluttur burt í haldi lögreglu.

„Svo sé ég fyrir mér að ef ég hefði komið kortéri fyrr og kannski verið að borga þá væri ég ekki að tala við þig núna,“ segir Kristín. Hún segir að nýi bíllinn hennar líti mjög illa út eftir áreksturinn en kveðst ánægð að ekki hafi farið verr.

„Þetta er nú bara bíll,“ segir hún.

Kristín flutti til Vestur-Virginíu í ágúst síðastliðnum ásamt manni sínum.

„Við komum frá Ísafirði, það var ekki mikið um eltingaleiki við lögguna þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×