Innlent

Íslensk kona í Baltimore: Þrír menn reyndu að brjótast inn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Karen Ösp Pálsdóttir er nemi í Baltimore.
Karen Ösp Pálsdóttir er nemi í Baltimore.
Karen Ösp Pálsdóttir, 22 ára kona sem býr í Baltimore í Bandaríkjunum, segir ástandið þar hræðilegt. Þrír menn reyndu að brjóta sér leið inn til hennar í kvöld og segist hún skelfingu lostin. Hún sé hlynnt mótmælunum en ekki átökunum sem þeim hafa fylgt undanfarna daga

Földu sig bak við luktar stáldyr

„Við búum hérna þrjár vinkonurnar og sáum í gegnum öryggissímann að þrír menn með einhverja hluti í höndunum reyndu að brjótast inn. Það er lítil búð á fyrstu hæðinni þannig að kannski hafa þeir farið þangað inn, þar er bara glerhurð. Útidyrahurðin okkar er úr stáli og við röðuðum húsgögnum fyrir framan hana þannig að þeir kæmust ekki inn. Við allavega vonum að þeir séu farnir en vitum það ekki,“ segir Karen í samtali við Vísi.

„Ég bý nálægt höfninni og sé að það er búið að eyðileggja allt í kring. Það er búið að kveikja í verslunum um alla borg og ég held þær séu flestar ónýtar. Það er mikil brunalykt inni í íbúðinni okkar og ég veit að ástandið er mjög hættulegt, þannig að ég finn fyrir miklum ótta.“

Vonaðist til að komast til foreldranna

Mótmæli hafa geisað á degi hverjum í Baltimore frá andláti hins 25 ára Freddie Gray. Hann féll hinn 19. apríl fyrir hendi lögreglu, en hann er einn nokkurra blökkumanna sem látið hafa lífið af völdum lögreglu á skömmum tíma.

Karen segir mótmælin ávallt byrja friðsamlega en þegar taki að dimma fari þau versnandi. „Þetta hefur aldrei verið svona slæmt. Ég var að vonast til að foreldrar mínir gætu sótt mig, en þau búa hérna rétt hjá, en við sjáum það núna að það er ekki hægt,“ segir hún.

„Veit ekki hvenær ég kemst út“

Karen fylgist grannt með stöðu mála, meðal annars í gegnum fjölmiðla. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi og útgöngubanni og fékk Karen tilkynningu um það í smáskilaboðum og tölvupósti. „Ef við förum út þá verðum við handtekin. Borgarstjórinn tilkynnti um útivistarbann áðan þannig að ég veit ekki hvenær ég kemst út,“ segir Karen.

Mótmælin snúa að lögreglunni en nú eru sjö lögreglumenn slasaðir, einn alvarlega. „Ég styð mótmælin en ekki þessa hegðun, þó að reiðin snúist að lögreglunni þá er maður hræddur.“

Lögregla hefur reynt að ná stjórn á ástandinu en enn sem komið er án árangurs. Mótmælendur hafa látið öllum illum látum í dag, kastað múrsteinum og öðru lauslegu í lögregluþjóna og –bíla á svæðinu. Fyrr í dag barst lögreglu upplýsingar um að meðlimir nokkurra glæpagengja hefðu tekið höndum saman og hygðust beina spjótum sínum að lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×