Erlent

Íslensk fjölskylda grýtt flöskum í Englandi vegna árangurs íslenska landsliðsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sumir virðast eiga í erfiðleikum með að þola að tapa.
Sumir virðast eiga í erfiðleikum með að þola að tapa. Vísir/Getty/Eyþór
Flöskum var grýtt í átt að íslenskri fjölskyldu í Brighton í Englandi þar sem mikill mannfjöldi var samankomin til þess að horfa á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi á mánudaginn. Öryggisverðir vöru snöggir að grípa inn í og mynduðu hring utan um fjölskylduna.

Frá þessu er greint á vef enska blaðsins Argus sem er staðarblaðið i Brighton. Þar segir að leikur Íslands og Englands hafi verið sýndur á stórum skjá á ströndinni í Brighton. Eftir að leik lauk og mannskarinn var að yfirgefa svæðið hafi einhverjir óprúttnir og svekktir stuðningsmenn enska landsliðsins grýtt flöskum í átt að íslenskum foreldrum og börnum þeirra.

„Allir voru að styðja sitt lið en í lok leiksins þegar ég leit til hliðar sá ég stuðningsmenn enska liðsins kasta flöskum í íslenska fjölskyldu,“ sagði Marie Clements sem varð vitni að athæfinu. „Ég sá ekki hvort að einhverjar flöskur hafi hæft vegna þess að öryggisverðirnir voru svo snöggir að hópast í kringum fjölskylduna.“

Lögregla var ekki kölluð til og enginn er talinn hafa orðið fyrir meiðslum. Clements telur að um einangrað atvik hafi verið að ræða.

„Þetta róaðist frekar fljótt og ég held að flestir hafi ekki orðið varir við þetta. Þetta var líklega einangrað atvik en maður fann að það var spenna í loftinu,“ sagði Clements.

Ljóst er að margir urðu ansi svekktir með að enska landsliðið datt út gegn Ísland og fékk landsliðið mikla útreið í enskum fjölmiðum eftir leikinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×