Handbolti

Íslendingurinn og sá íslensk ættaði nýttu skotin sín hundrað prósent í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg skoraði 13 mörk í kvöld.
Hans Lindberg skoraði 13 mörk í kvöld. Vísir/Getty
Füchse Berlin er fjórum stigum á eftir toppliðunum þremur eftir tveggja marka heimasigur á MT Melsungen, 33-31, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Refirnir hans Erlings Birgis Richardssonar voru aðeins búnir að ná í eitt stig af fjórum mögulegum í síðustu tveimur deildarleikjum sínum fyrir leikinn í kvöld og sigurinn því nauðsynlegur ætli liðið að blanda sér í titilbaráttuna.

Erlingur fékk frábært framlag frá hornamönnunum sínum í dag því þeir Hans Lindberg og Bjarki Már Elísson nýttu öll sautján skotin sín í leiknum samkvæmt tölfræði þýska handboltasambandsins.

Hans Lindberg, sem er Dani en á íslenska foreldra, skoraði þrettán mörk úr þrettán skotum í þessum leik og ekkert þeirra kom af vítalínunni.

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum þar á meðal eitt mikilvægt mark á lokakaflanum þegar hann jafnaði metin í 30-30.

Útlitið var þó ekki bjart í hálfleik fyrir Füchse Berlin sem var þá fjórum mörkum undir, 14-18. Hálfleiksræða Erlings fór vel í liðsmenn Füchse sem unnu sig fljótt inn í leikinn.

Bjarki jafnaði metin í 30-30 og Füchse tryggði sér síðan sigur með því að skora tvö síðustu mörkin. Það voru þeir Petar Nenadic og Paul Drux sem skoruðu þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×