Innlent

Íslendingur í Úkraínu: „Það er sorg í hjörtum fólks"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Við heræfingar sínar við úkraínsku landamærin í dag notaðist rússneski herinn við nýjan og tæknilega fullkominn útbúnað. Þá sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í morgun að umsvifalaust yrði brugðist við ef reynt yrði að brjóta gegn rússneskum hagsmunum í Úkraínu.

Bandaríkjamenn hóta frekari viðskiptaþvingunum gegn Rússum og tilkynntu í gærkvöldi að 600 hermenn yrðu sendir til Póllands og Eystrasaltsríkjanna. Þeir útiloka ekki frekari viðbúnað í aðildarríkjum NATO í austanverðri Evrópu.

Stefán Haukur Jóhannesson hefur verið í Kænugarði í tæpar tvær vikur, þar sem hann leiðir eftirlitssveit á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hann segir borgarbúa fylgjast grannt með og að margir vænti þess að forsetakosningarnar þann 25. maí verði vendipunktur.

„Fólk er mjög slegið ennþá. Það er sorg í hjörtum fólks eftir morðin á þeim mótmælendum sem voru skotnir hérna í febrúar af leyniskyttum og mikil reiði vegna þess,“ segir Stefán.

Hann segir áhrifaríkt að upplifa andrúmsloftið á Sjálfstæðistorginu, þar sem mótmælendur hafast enn við í tjaldbúðum. Á páskadag hafi þó fulltrúar helstu trúarbragða á svæðinu komið þar saman.

„og skilaboðin sem komu frá þessari samkomu voru mikið um samstöðu og frið,“ segir Stefán.

Hann segir fólk horfa með kvíða til atburðanna í austurhluta landsins, en mikilvægt sé að fólk tali áfram saman.

„Og það er kannski eitt af því sem ÖSE getur stuðlað að, það er að byggja brýr á milli þessara afla sem eru að mótmæla og láta til sín taka,“ segir Stefán að lokum.


Tengdar fréttir

Komist að samkomulagi í Genf

Öllum ólögmætum heraðgerðum í Úkraínu verði hætt og að allir aðskilnaðarsinnar skuli leggja niður vopn.

Kerry hótar frekari aðgerðum gegn Rússum

Enn kólnar andrúmsloftið á milli Bandaríkjamanna og Rússa vegna ástandsins í Úkraínu. Utanríkisráðherrararnir John Kerry og Sergei Lavrov ræddu saman í síma í gærkvöldi þar sem Kerry lýsti miklum áhyggjum yfir því að Rússar hafi ekki gert nægilega mikið til þess að draga úr spennunni á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×