Erlent

Íslendingur í Svíþjóð segir eldana úr böndunum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Enn fleiri eldar kviknuðu í Svíþjóð í dag þar sem skógareldar hafa geisað síðustu daga. Íslendingur sem býr í Ljusdal þar sem ástandið er hvað verst segir aðstæður grafalvarlegar og að yfirvöld geri allt til að tryggja öryggi íbúa.

Ekkert lát er á skógareldunum sem geisa í Svíþjóð og hafa eldar logað á um fimmtán þúsund hekturum síðasta sólarhringinn. Mikill vindur er á svæðinu og segja heimamenn að eldurinn hafi farið um tveggja kílómetra leið á miklum hraða.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa fengið aðstoð frá Frökkum, Ítölum og Þjóðverjum sem nota slökkviflugvélar við slökkvistarf en einnig eru norskir og danskir slökkviliðsmenn á vettvangi. Íslendingur sem búsettur er í Ljusdal segir eldvegginn um fimmtíu kílómetra langan.

„Þetta er út úr böndunum,“ segir Óskar Þorkelsson. „Þeir eru að fá fimm þyrlur frá Þýskalandi í dag. Það kemur ein frá Litháen í kvöld og eldveggurinn er eins og frá Árbæ upp í Selfoss.“

Óskar segir bæjarbúa vera vara við þá miklu elda sem brenna í kringum bæinn sér í lagi ef vind leggur yfir bæinn og að síðustu daga hafi mikill reykur verið í bænum.

„Þú sefur ekki á næturnar. Það er reykjarlykt og hiti.“

Óskar segir að í Ljusdal sé búið að rýma þrjú til fjögur bæjarfélög. Í morgun brunnu eldar á um 46 stöðum í Svíþjóð en nú síðdegis hafði þeim fjölgað umtalsvert.

„Samkvæmt fréttum klukkan fjögur í Svíþjóð voru 68 eldar og tveir nýir sem kviknuðu eftir það. Stóru eldarnir eru vandamál og þeir eru fjórir og það er þar sem allar þyrlurnar og slökkviliðsflugvélarnar eru,“ segir Óskar.

Almannavarnir á svæðinu vinna hörðum höndum að því að finna leiðir til að hefta útbreiðslu eldsins og hafa skógarhöggsmenn unnið að því að rjúfa 60 metra breiða trjálínu.

„Þessi rigning sem kom í dag. Hún rigndi alls staðar, nema þar sem eldarnir eru. Alveg ótrúlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×