Erlent

Íslendingur í Mexíkó: „Menn eru alltaf viðbúnir því versta“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Margir hér minnast skjálftans sem varð árið 1985 þegar yfir 10 þúsund fórust og eru menn því alltaf viðbúnir hinu versta.“
"Margir hér minnast skjálftans sem varð árið 1985 þegar yfir 10 þúsund fórust og eru menn því alltaf viðbúnir hinu versta.“ vísir/ap
Gríðar öflugur jarðskjálfti, 7,2 að styrkleika, skók Mexíkóborg í dag. Byggingar nötruðu og rúður brotnuðu. Skelfing greip um sig meðal íbúa sem þustu út á götur af ótta við að hús myndu hrynja.

Lárus Viðar Lárusson býr í Mexíkóborg og segir fólki virkilega brugðið. „Það verða örugglega kröftugir eftirskjálftar, þessi var það stór. En maður vonar það besta,“ segir Lárus sem segir sérstakt hversu lengi skjálftinn stóð yfir. „Sumir segja 2 mínútur, en ég hef ekki fengið það staðfest.“

Hann segir ekki marga hafa verið á ferli í borginni, það sé frídagur og fólk haldi sig þá flest heima við. Þá segir hann eitthvað hafa verið um rafmagnstruflanir og lá allt farsímakerfi niðri á tímabili.

„Þessir skjálftar eru öflugir. Allt nötrar og skelfur, ljósastaurar og umferðarljós svigna til og frá.“

Lárus býr með eiginkonu sinni og sonum og voru þau heima hjá sér þegar skjálftinn reið yfir að undirbúa veislu.

„Við stukkum til og stóðum við burðarveggi á meðan skjálftinn reið yfir. Við eigum þrjá drengi en þeir létu sér ekki bregða. Vinir og ættingjar voru skelkaðir en það má alltaf búast við skjálftum á þessu svæði. “

Um tuttugu milljónir búa í Mexíkóborg. Árið 1985 fórust þúsundir manna í jarðskjálfta sem mældist 8,1 að styrkleika. „Margir hér minnast skjálftans sem varð árið 1985 þegar yfir 10 þúsund fórust og eru menn því alltaf viðbúnir hinu versta.“


Tengdar fréttir

Öflugur skjálfti í Mexíkó

Mikil skelfing greip um sig meðal íbúa sem þustu út á götur af ótta við að hús myndu hrynja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×